Það er gaman á Nútímanum í dag. Aðsóknin er að aukast mikið og ég er nokkuð ánægður með vefinn eins og hann er orðinn í dag. Ég er reglulega spurður um vefinn og mig langar að svara fimm algengum spurningum — svona til að æfa mig í því fyrir jólaboðin.
1. Ertu enn þá einn með þetta?
Eiginlega ekki. Ég skrifa fréttirnar á Nútímanum en fæ stundum hjálp við hitt og þetta. Ég fæ til dæmis fólk til að búa til handa mér próf og birti pistla eftir aðra. Svo var Nútíminn að gera frábæran samning við framleiðslufyrirtækið SKOT um framleiðslu á myndböndum fyrir síðuna. Það þýðir að fullt af fólki (þau eru fimm) eru úti um allan bæ að taka upp allskonar innslög sem birtast á Nútímanum. Svo erum við meira að segja búin að búa til sjónvarpsþátt sem heitir Nútímafólk og fjallar um allskonar fólk.
2. Ertu alltaf að vinna?
Já. Ég held enn þá utan um allt sjálfur og þarf að halda fréttaflutningi og efnisframboði á Nútímanum stöðugu. Ég er á því að stöðugleiki sé lykillinn að velgengni á internetinu og aðsókn á Nútímann hefur haldist nokkuð stöðug frá því að hann fór í loftið í lok ágúst 2014. Aðsóknin hefur reyndar aukist mikið síðustu mánuði og vikulegir gestir hafa verið á bilinu 89 til 112 þúsund undanfarið. En þetta þýðir líka að ég hef ekki átt einn einasta frídag frá 25. ágúst 2014. Það er skelfilegt en þess virði á meðan maður er að byggja eitthvað upp. Áramótaheitið er samt að bæta úr þessu svo kærastan fari ekki frá mér.
3. Gengur þetta alveg?
Já. Fálki útgáfa ehf., útgáfufélag Nútímans, skilaði hagnaði á fyrsta rekstrarári sínu sem var reyndar bara fjórir mánuði. 2015 mun einnig skila hagnaði en það hefur reyndar aldrei neitt annað verið í boði. Stofnun Nútímans kostaði ekki neitt og vefurinn þarf að reka sig á auglýsingatekjum. Það gengur vel og ég er mjög þakklátur auglýsendum sem hafa trú á miðlinum.
4. Er Jón Ásgeir/Björn Ingi/einhver annar búinn að reyna að kaupa Nútímann?
Nei. Eða. Menn hafa alveg spjallað við sjomlann en ekkert kauptilboð hefur borist í Nútímann. Ég hef oft látið mig dreyma um fulla vasa af hlutafé en hef sett í forgang að auka efnisframboð á vefnum og þar með þjónustu við lesendur. Ég hef trú á því að þannig aukist tekjurnar og svigrúm skapist til að gera enn betur.
5. Er eitthvað á döfinni?
Já. En ég segi ykkur betur frá því um áramótin. Samningurinn við SKOT var skref í rétta átt og skrefin verða fleiri á næstunni. Fylgist með.