Auglýsing

Stórborgarlíf

Stórborgarlíf. London. Höfuðborg Evrópu. Búinn að búa í þrjá mánuði hér. „Fresh off the boat“ eins og sagt er. Nýkominn frá litlu saklausu eyjunni á norðurhjaranum. Hér er iðandi mannlíf, fólk allstaðar að úr heiminum gengur göturnar greitt, allir að flýta sér eitthvert. Jakkafataklæddir menn líkjast maurum iðandi um strætin. Verslanir, kaffihús og krár á hverju götuhorni og meira til. Fallegar gamlar byggingar innan um nútíma skýjakljúfa. Byggingakranar hvert sem maður lítur. Hugmyndin um að tími er peningar á mjög vel við hérna. Vinnumenningin er sniðin eftir því. Hver einasta mínúta vinnudagsins er vel nýtt. Eftir eitt verkefni tekur annað við. Varla tími til að þurrka svitann. Matartíminn er 30 mínútur og ekki sekúndu meira. Ef yfirmaður þinn segir að hann hafi eina mínútu til að hlusta á hugmynd þína þá hefur hann í raun eina mínútu. Hann á ekki við fimm mínútur. Hann mun taka eina mínútu frá sínum dýrmæta tíma og hlusta og þú verður að nýta þann glugga því að ef ekki þá er skipið siglt úr höfn. Neðanjarðarlestir, ofanjarðarlestir, tveggja hæða strætisvagnar og gamaldags leigubílar útum allt á fleygiferð. Mannmergðin gríðarleg. Veggjakrot af ýmsum stærðum, gerðum og gæðum.

Stórborgarlíf. Er það eitthvað fyrir hann? Þótt hann sé frá höfuðborg Íslands er hann náttúrubarn. Hann nýtir vel tímann til að ferðast innanlands og iðka sína eftirlætisiðju sem er stangveiði. Hann er vanur ósnertri náttúru, útsýni yfir sjó og fjöll. Vanur að sjá ár og fossa, finna ilminn af birki, lyngi, túnum og blómum. Vanur að ganga yfir hraun og sökkva í mosa. Vanur að arka meðfram stöðuvötnum og sökkva í mýri. Vanur að hlaupa innan um þúfur og detta af og til. Vanur að heyra suð í býflugum og fuglasöng. Vanur að hitta vorboðann og heyra í himbrimanum, heyra hvell hljóð hrossagauksins þegar hann dýfir sér niður úr háloftunum, heyra endurnar kvaka og heyra vængjaþyt gæsanna yfir höfðinu. Hann er vanur að ganga meðfram eftirlætisánni og dást að fegurðinni, heyra silung skvetta sér þegar hann tekur fiðrildi í yfirborðinu, heyra stöku lax stökkva og boða heimkomu sína eftir langa göngu úr sjó að æskuslóðum. Vanur að sjá og heyra í andarunga sem baðar út öllum öngum í örvæntingarfullri leit að fjölskylduhjörðinni. Vanur að heyra kindurnar jarma og hlaupa taugaveiklaðar frá honum með spörðin dinglandi í ullinni þegar hann gengur yfir túnin. Vanur að heyra köll svansins. Vanur að sjá hestana hlaupa meðfram ánni, í einhverskonar leik, folinn fremstur, virðulegri en allar skepnur samtímans, hryssan þokkafull þar fyrir aftan og folaldið fullt af leik og klaufaskap aftast. Vanur að heyra krumma krunka og sjá hann fljúga um eins og konung alheimsins. Leit er að tignarlegri sjón. Hvernig hann svífur um, myrkur og dulúðlegur, hljóðlátlega líkt og hann sé í annarri vídd. Hann er vanur að liggja á bakinu, virða fyrir sér skýin, hversu hratt þau ferðast í rokinu og hvaða furðuverur þau mynda. Sjá flugvélar fljúga til annarra landa og hugsa að þetta sé eini staðurinn sem hann vill vera á. Vanur að píra augun gegn stingandi sólskininu og finna hitann í kinnunum. Það gerist ekki oft en þegar það gerist þá er það svo gott. Vanur að finna rigninguna berja vangann í rokinu en á sama tíma vera hlýtt í hjartanu vegna fegurðarinnar allt í kring. Vanur að standa útí ánni, undan vindi, upp að mitti og finna öldurnar berja á líkamanum, snúa sér við og hlæja að og með rokinu. Að berjast við vænan silung við þessar aðstæður er ótrúleg upplifun sem erfitt er að koma í orð. Vanur að liggja í grasinu og finna fyrir ýmsum flugum og skordýrum ganga yfir andlit og fingur og láta það ekki angra sig. Vanur að sofna undir berum himni, innan um grasið og sofa værasta svefni sem hægt er að hugsa sér. Hálftími undir þessum kringumstæðum er líkt og 12 tíma svefn heima í rúmi. Tengingin við náttúruna er algjör og orkan sem þannig blundur gefur manni er ólýsanleg. Eins og að stinga beint í samband. Í samband við hreina, óbeislaða, ótakmarkaða orku.

Eða hvað? Er hún ótakmörkuð? Munum við geta gengið að þessum perlum alla okkar ævi og ævi barna og barnabarna og svo framvegis? Eða þurfum við að fara varlega? Það sem kemur fyrst og fremst upp í hugann er annars vegar stóriðja og hinsvegar hinn mikli ágangur ferðamanna. Það er auðvelt að fara framúr sjálfum sér með dollaramerki í augunum og hugsa ekki um afleiðingarnar. Ferðamennska er í sjálfu sér ekki slæm. En allt er gott í hófi. Hófsemd er nefnilega svo mikilvæg dyggð. Sem gleymist oft í nútímakapphlaupi hins kapitalíska raunveruleika. Mannskepnan er gráðug og margir vilja meira en næsti maður. Við á Klakanum ættum að þekkja það vel eftir upplifunina fyrir hrun. Eins mikilvægir og aurarnir sem ferðamennska skilar í kassann í dag virðast vera, verða þeir eins mikilvægir þegar náttúra okkar yndisfagra lands er komin í þrot? Munu þessir aurar bjarga náttúrunni, viðhalda henni eins ósnortinni og hún er þekkt fyrir að vera? Nú þegar eru brestir í þessum ósnertanleika. Náttúruperlur eru sumar hverjar farnar að líta æ/sífellt meira út eins og Disneyland. Dæmi sem kemur upp í hugann eru Dimmuborgir. Manngerðir stígar, skilti og reipi sem segja hvert má fara og hvað skal sjá. Ég man vel eftir þegar við eldri systir mín klifruðum og hlupum um Dimmuborgir í ógleymanlegum ævintýraleik þar sem tröll og skrímsli eltu okkur og ímyndunaraflið lék lausum hala. Ég skil vel að slíkt sé ekki hægt við núverandi aðstæður þar sem tugir rúta leggja í bílastæðin daglega yfir mesta álagstímann. Í þá daga kom kannski ein rúta á viku. Í mesta lagi tvær, og þær voru ekki yfirfullar. Stöku Þjóðverjar, Ítalir og kannski tylft Japana týndust útúr rútunni. Með litlar gamlar Canon vélar hangandi um hálsinn, engir snjallsímar á lofti þá. Ég á erfitt með að ímynda mér að sonur minn sem er á svipuðum aldri og ég var þegar ég sá tröllin innan um hraundrangana í Dimmuborgum, sjái tröllin og skepnurnar jafn ljóslifandi fyrir sér innan um skiltin og manngerðu stígana.

Þetta er snúið viðfangsefni og erfitt umfjöllunar þar sem margar krónur koma við sögu og krónurnar þurfum við vissulega. En þetta er spurning um að fara hinn gullna meðalveg og draga línuna í sandinn. Á næsta ári er því spáð að yfir 1,5 milljón ferðamanna munu fljúga til Íslands. Það er u.þ.b. fimmföld íbúatala landsins. Hvernig endar þetta?, mætti maður spyrja sig. Og ekki að óþörfu. Þetta er spurning um hvað við viljum. Viljum við gera út á túrismann, út í óendanleikann? Viljum við að bílastæðin við Gullfoss og Geysi líti út eins og bílastæðin í Kringlunni á laugardagseftirmiðdegi á útsöluvertíð? Viljum við ganga niður Laugaveginn og heyra einungis öll önnur heimsins tungumál en íslensku? Ganga til móts við litskrúðugan útivistarfatnaðinn sem ætlar engan endi að taka líkt og ein stór 66 Gráður Norður tískusýning? Ganga til móts við öll flössin úr snjallsímunum? Fá á tilfinninguna að þú sért eini heimamaðurinn í eins kílómetra radíus? Maður spyr sig. Sem fyrr segir er þetta viðkvæmt málefni. Þetta snertir krónur og aura og þetta kemur inn á fordóma. Því að með því að tala svona þá á maður á hættu að fá yfir sig holskeflu af skömmum fyrir að vera gamaldags, útlendingahatari og ég veit ekki hvað og hvað. Hvort sem það eru ástæðurnar fyrir að þessi umræða er ekki tekin af neinni alvöru að mínu mati er góð spurning. En umræðan er þörf, því fyrr því betra. Og umræðan þarf að fara á hærra stig en heitapottsspjall eða jólaboðasamtöl. Með fullri virðingu fyrir þeim vettvöngum. Og nú er ég ekki að tala um sófaspjall hjá Gísla Marteini, ég á við að umræðan verði tekin í stóra gráa húsinu við Austurvöll. Smá pæling, en verðug pæling. Takk fyrir mig.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing