Auglýsing

Páll Óskar varar við fölsuðum miðum, vill að Spot biðji ballgesti afsökunar

Poppkóngurinn Páll Óskar Hjálmtýsson hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að allt of mörgum var hleypt inn á ball hans á Spot um helgina. Hann varar fólk við að kaupa falsaða miða á böllin sín enda fari ekkert milli mála hvaða miðar séu í gildi.

Fjölmargir ballgestir hafa kvartað á Facebook-síðu Páls Óskars yfir því allt of mörgum hafi verið hleypt inn á ballið. Sjálfur fékk hann fréttirnar þegar ballið var búið.

„Jæja, elskurnar. Svona var upplifun mín á Pallaballinu á Spot. Allir syngjandi glaðir svo langt sem augað eygði. Ég spilaði pásulaust frá kl. 23 til 4 um nóttina. Allir glaðir, enginn kvartaði í mín eyru, enginn sagði mér neitt, hvorki starfsfólk, dyraverðir, né syngjandi glaðir gestirnir,“ segir hann.

Þegar ballið var búið fékk ég fréttirnar. Miðasölunni var lokað kl. 1.20, ekki einn miði var seldur eftir það. Lögreglan mætti þegar miðasölunni hafði verið lokað. Þessvegna fékk ég að klára ballið til kl. 4. Engum var hleypt inn eftir kl. 1.20 og þeir, sem þess óskuðu, fengu endurgreitt á staðnum.

Páll Óskar birtir myndir af tveimur miðum sem voru í umferð — annars vegar sérprentuðum miða frá honum og hins vegar miða sem Spot virðist hafa selt án leyfis.

„Hér er augljós munurinn á aðgöngumiðunum. Ég vil vara ballgesti mína við því að kaupa falsaða, handskrifða miða á þessi böll í framtíðinni,“ segir hann.

„Það fer ekkert á milli mála hvaða miðar gilda á Pallaball. Hafandi sagt það, þá finnst mér að afsökunarbeiðnin ætti fyrst og fremst að koma frá Spot.“

Páll Óskar segir ljóst að fleiri aðgöngumiðar en hans eigin voru í umferð. „Ég prentaði sérhannaða númeraða miða fyrir þetta ball. Sumir gestir mættu á ballið með handskrifaða Spot miða,“ segir hann.

„Þeir höfðu verið seldir í forsölu á staðnum án minnar vitundar. Þetta varð til þess að fólksfjöldinn fór yfir leyfileg mörk í húsinu. Ég er bara þakklátur fyrir að engin slys urðu á fólki, það leið ekki yfir neinn, engin slagsmál brutust út og engum var hent út. Ef slíkt ástand brytist út í húsinu myndi ég stöðva ballið persónulega. Sem betur fer hefur ekki komið til þess í minni tíð.“

Páll Óskar biður aðdáendur og ballgesti sem fannst þeir ekki njóta sín afsökunar en leggur áherslu á að Spot ætti fyrst og fremst að biðjast afsökunar. „Ég mun kappkosta að slíkt gerist ekki aftur á minni vakt.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing