Mánaðarlaun bankastjóra Landsbankans hækka um rúmlega 565 þúsund í kjölfar úrskurðar kjararáðs fyrr í þessum mánuði. Heildarlaun eru um 1.950 þúsund eftir hækkunina og hækka um 41%. Hækkunin er afturvirk til 1. desember. Þetta kemur fram á mbl.is.
Mbl.is greinir frá því að þetta sé þriðja launahækkun bankastjórans frá ársbyrjun 2009. Í mars árið 2010 voru laun bankastjórans hækkuð í tæplega 1.159 þúsund krónur. Launin voru svo hækkuð í 1.384 þúsund í júní 2013 en þá var hækkunin afturvirk frá og með 1. júní 2012.
Laun bankastjóra Landsbankans heyra undir kjararáð.
Bankaráð Landsbankans sendi kjararáði bréf í fyrra þar sem kom fram að raunverulegur vinnutími bankastjóra utan dagvinnu hafi að jafnaði verið á bilinu 100-120 klst. á mánuði.
Engin rök standi til þess að kjararáð ákvarði bankastjóra Landsbankans lakari laun og starfskjör en þau sem hafi verið ákvörðuð fyrir seðlabankastjóra eða forstjóra Landsvirkjunar.