Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að kennarar ættu að vera svo viðbjóðslega vel launaðir að það valdi öfund í samfélaginu. Þetta kemur fram í viðtali við Helga í Stúdentablaðinu.
Helgi segist vera óttalegur „menntakommi“ og honum finnist mikilvægast að menntakerfið sé nógu vel fjármagnað.
Mér finnst að kennarar ættu að vera það viðbjóðslega vel launaðir að það valdi öfund í samfélaginu og að allir hafi aðgang að þeirri menntun sem þeir vilja. Það er auðvitað bara mín skoðun og ekki endilega allra Pírata.
Hann segist þó sjálfur vera drop out. „Ég var algjör tossi, hrökklaðist úr menntaskóla vegna þess að ég valdi nám sem ég hafði ekki áhuga á en ég hef frekar lært upp á eigin spýtur. Áhugi er svo sterkur drifkraftur en það er lexía sem ég hafði ekki lært á þessum tíma,“ segir hann í Stúdentablaðinu.
„Mikilvægast finnst mér að menntakerfið sé bara nógu fjandi vel fjármagnað og mér finnst allt í lagi að það sé ekki hámarksnýting á fé þegar kemur að menntun. Fólk þarf svigrúm til að gera mistök og skipta um skoðun. Menntun er besta jafnaðartæki sem til er og jafnframt það sanngjarnasta. Fátækasti krakkinn í hverfinu á að geta orðið hagfræðingur eða hvað sem hann vill án þess að það þurfi að vera einhver rómantísk kraftaverkasaga.“