Oddfellowreglan á eignir upp á þrjá milljarða króna. Þetta kemur fram á vef Stundarinnar. Þar kemur einnig fram að æðstu menn í reglunni hafi þurft að sitja undir hótunum og dylgjum fyrrverandi félaga og féhirðis.
Sá heitir Ómar Sigurðsson en hann segist í samtali við Stundina hafa hætt í reglunni vegna fjármálamisferlis. Hann hefur ítrekað sakað regluna um stórfelld skattalagabrot en leiðtogar reglunnar segja hins vegar ekkert vera hæft í ásökunum Ómars.
Umfjöllun Stundarinnar má lesa hér en eitt af því svakalegra í henn er lýsing Ómars á vígslu inn í regluna. Hún hefst þannig að núverandi meðlimur þarf að mæla með nýjum félaga sem er svo tekinn í yfirheyrslu þar sem hann er meðal annars spurður út í heilsufar og fjárhagslega stöðu.
Ef hann kemur vel út er hann boðaður í vígslu þar sem hann undirritar ýmis gögn og svo færður inn í skáp af tveimur meðlimum þar sem ekkert er að finna nema opna biblíu og kerti. Bannað er að hafa samskipti við viðkomandi og hann dvelur í skápnum í klukkutíma.
Hann er svo sóttur af tveimur meðlimum Oddfellow, hlekkjaður á höndum ásamt því að bundið er fyrir augu hans. Þá er hann leiddur inn í sal sem samkvæmt umfjöllun Stundarinnar „hefur yfirbragð trúarathafna með púlt í sitt hvorum enda og altari sem kapellan stendur framan við“
Umsækjandinn er leiddur nokkra hringi um salinn og sýndur stúkumeðlimum sem þar eru fyrir. Hann er svo færður fyrir framan líkkistu sem inniheldur beinagrind (!) Beinagrindin getur verið bæði raunveruleg og gervi.
Umsækjandin horfir svo niður í kistuna á meðan siðameistari þylur upp þulu áður en hann sver reglunni ævilanga tryggð.