McDonalds hefur tilkynnt að í lok árs verði þjónað til borðs á 400 veitingastöðum skyndibitarisans í Bretlandi. Á 14 stöðum er þegar byrjað að þjóna til borðs. Þetta kemur fram á vef BuzzFeed News.
Viðskiptavinir McDonalds munu geta pantað matinn sinn í sérstökum sjálfsölum og fengið bakkann á borðið sitt. Verið er að kynna þjónustuna til sögunnar í Frakklandi, Ástralíu og í Þýskalandi en áætlað er að hún verði í boði á meirihluta veitingastaðanna 1.250 í Bretland innan tveggja ára.
Paul Pomroy, framkvæmdastjóri McDonalds í Bretlandi, segir í samtali við BuzzFeed News mikilvægt að fjárfesta í upplifun viðskiptavina.
Það er mjög mikilvægt að við höldum áfram að hlusta á þessar 3,7 milljónir manna sem heimsækja okkur á hverjum degi og gefa okkur góð ráð.
Fólk þarf því ekki lengur að bíða í röð við afgreiðsluborðið eftir Big Mac og frönskum kartöflum. Á meðan höldum við á Íslandi áfram að syrgja brotthvarf skyndibitarisans. Eða fagna því.