Playboy tilkynnti í október að tímaritið myndi hætta að birta nektarmyndir til að höfða til yngri lesendahóps. Ákvörðunin er söguleg en Playboy hefur birt myndir af allsberum konum í 62 ár.
Fyrsta tölublaðið án nektarmynda er væntanlegt í hillurnar og það virðist vera undir miklum áhrifum frá Snapchat. Forsíðan lítur út eins og mynd á Snapchat með gráa borðanum og texta sem virðist koma frá forsíðufyrirsætunni Söruh McDaniel. Þá virðist hún halda sjálf á myndavélinni.
Sjá einnig: Pamela Anderson sú síðasta til að fækka fötum í Playboy
En af hverju Snapchat? Vefmiðillinn The Verge bendir á að enginn samfélagsmiðill höfði betur til ungs fólks en Snapchat. 45 prósent af notendunum eru á aldrinum 18 til 24 ára.
Forsíðufyrirsætan er líka stjarna á samfélagsmiðlum — Sarah McDaniel sló í gegn á Instagram þegar vefsíður á borð við Chive og Brobible byrjuðu að birta myndirnar hennar.
New York Times fjallar einnig um endurhönnunina á Playboy. Þar kom fram að þrátt fyrir yfirlýsingar um annað eru ennþá allsberar konur í Playboy. Þær eru bara myndaðar þannig að allt sem á ekki að sjást, sést ekki.
Í umfjölluninni kemur fram að myndirnar eru náttúrulegri en áður. Photoshop virðist ekki vera notað jafn mikið til að lagfæra myndirnar sem eru meira í líkingu við sjálfsmyndir úr símum.
Loks heldur Playboy í arfleið sína í blaðamennsku. Í nýja tölublaðinu er viðtal við fréttakonuna Rachel Maddow ásamt grein eftir hinn norska Karl Ove Knausgaard.
The Verge bendir á að þetta snúist allt um að endurheimta lesendur. Samkvæmt forsvarsmönnum Playboy tókst þeim að fjölga heimsóknum á vefsíðu sína um 400% með því að fjarlægja af henni nektarmyndir. Spurning hvernig fer með prentuðu útgáfuna.