Um hvað snýst málið?
Héraðssaksóknari hefur fellt niður mál tveggja manna sem kærðir voru fyrir að nauðga konu í íbúð í Hlíðunum í október á síðasta ári. Atvikið átti sér stað eftir bekkjarskemmtun nemenda í Háskólanum í Reykjavík.
Önnur kona kærði annan tvímenninganna fyrir nauðgun í sömu íbúð og er það mál enn til meðferðar hjá saksóknaraembættinu, samkvæmt frétt Vísis.
Hvað er búið að gerast?
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi annars mannsins, kærði konurnar tvær fyrir rangar sakargiftir og aðra þeirra fyrir nauðgun. Í desember voru kærurnar felldar niður hjá lögreglu.
Mál mannanna vakti hörð viðbrögð í kjölfarið á því að Fréttablaðið greindi frá því að íbúðin hafi verið útbúin til nauðgana. Lögreglan var gagnrýnd á samfélagsmiðlum fyrir að krefjast ekki gæsluvarðhalds yfir mönnunum og var kassamerkið #almannahagsmunir var notað til að halda utan um umræðuna.
Fólk kom saman á mótmælafundi fyrir utan lögreglustöðina við Hverfisgötu og mótmælti aðgerðarleysi lögreglu í kynferðisbrotamálum. Þá voru mennirnir nafngreindir og myndir birtar af þeim á netinu vegna málsins.
Hvað gerist næst?
Hægt er að kæra ákvörðun héraðssaksóknara til ríkissaksóknara.
Vilhjálmur Hans segir á vef RÚV að skaðabótamáli gegn Fréttablaðinu og 365 miðlum verði haldið til streitu sjái fjölmiðillinn ekki að sér.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.