Frétt Nútímans um að Baltasar Kormákur og fyrirtæki hans RVK Studios ætli að halda veislu sama kvöld og á sama tíma og Edduverðlaunin fara fram á sunnudagskvöld vakti mikla athygli. Í samtali við Nútímann segir Baltasar að enginn annar tími hafi komið til greina, verið er að ljúka tökum þennan dag og daginn eftir er hann floginn til útlanda.
Sjá einnig: Baltasar heldur eigið bransapartí á sama kvöldi og á sama tíma og Edduverðlaunin
Baltasar segir af og frá að veislan hans sé á einhvern hátt haldin til höfuðs Eddunnar. Það sé til siðs að fagna tökulokum og nú er einnig tilefni til að fagna gríðarlegri velgengni Ófærðar. Þetta hittist einfaldlega svona á en hann á engu síður von á margmenni, hvort sem fólk mæti þegar veislan hefst eða eftir Edduverðlaunin.
Við erum að ljúka tökum þennan dag og það var ekki möguleiki að halda veisluna á öðrum degi — það er ekki hægt að halda þetta á mánudagskvöldum. Ég er svo að fara erlendis daginn eftir.
Sjálfur veit hann ekki einu sinni hvenær hann kemst í veisluna, það fer eftir hvenær tökum á Eiðnum lýkur en tökur hafa staðið yfir í þrjá mánuði og hann stefnir svo á að frumsýna hana í haust.
„Það er aðallega klaufalegt að vera með þetta á Óskarsverðlaunadaginn,“ segir Baltasar um Edduna en fleiri hafa furðað sig á því að þessum hátíðum sé stillt upp á sama kvöldinu.
En Baltasar ætlar ekki bara að fagna velgengni Ófærðar og tökulokum á Eiðnum. Á laugardaginn verður hann nefnilega fimmtugur þannig að veislan á sunnudaginn verður óhjákvæmilega með afmælisívafi.
„Það er náttúrulega áfall. En það er samt betra en að vera ekki fimmtugur,“ segir Baltasar laufléttur spurður út í stórafmælið. „Ég sá þetta ekki fyrir mér. Svo fannst mér eiginlega meira sjokk þegar ég heyrði að það er 30 ára útskriftarafmæli úr MR í vor.“
En ein spurning að lokum, ætlarðu að mæta á Edduna?
„Það fer eftir því hvenær ég er búinn í tökum. Það getur vel verið að ég láti sjá mig þar.“