Samfés, samtök félagsmiðstöðva á Íslandi, eru gagnrýnd fyrir áherslur í myndbandi sem birt var á Facebook-síðu samtakanna í gær. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan en það fjallar um jafningjafræðslunámskeið til að fræða ungt fólk um sexting og afleiðingar þess.
Sexting þegar send eru skilaboð eða mynd sem gefur eitthvað kynferðislegt til kynna. Sunna Ben, ein af skipuleggjendum Druslugöngunnar, gagnrýnir myndbandið en þar er áhersla lögð á að þau sem senda slíkar myndir frá sér í stað þeirra sem dreifa myndunum í leyfisleysi.
„Þó það komi margt áhugavert fram hér ætti að mínu mati að vera miklu meiri áhersla á að undirstrika hvað það er rangt og ömurlegt að áframsenda svona efni sem einhver hefur sent mögulega undir pressu og sennilega til einhvers sem hann/hún treysti fyrir því,“ segir Sunna í athugasemd við myndbandið á Facebook.
Það er ekki sá sem sendir myndina sem á að skammast sín, heldur sá sem kemur henni í umferð í leyfisleysi. Það er algjör óþarfi að blammera þá sem verða fyrir ofbeldinu.
Samfés segir í svari til Sunnu að í umræðum á vegum samtakanna sé fjallað um að sá sem áframsendir efnið sé í leyfisleysi. „Myndbandið er bara inngangurinn að lengra jafningjafræðslunámskeiði sem ungmennaráð hefur undirbúið og byggt er upp á fræðslu, umræðum og leikjum og segir því miður ekki alla söguna.“
Sunna gagnrýnir að myndbandið hafi verið birt án þess að fjallað sé um ábyrgð þeirra sem dreifa myndum í leyfisleysi. „En þetta er það sem þið gáfuð út í þetta sinn og þetta tiltekna efni sem er sennilega það eina af þessu myndbandi sem mörg okkar sjá, talar bara um ábyrgð þolenda,“ segir hún.
„Þið gætuð þá viljað endurklippa það til að setja aðrar áherslur því þetta hljómar ekki vel.“
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.