Sjónvarpsmaðurinn Jón Ársæll Þórðarson hefur fært sig yfir á RÚV og vinnur nú að nýjum þáttum sem bera vinnuheitið Paradísarheimt. Þættirnir fjalla um ýmis geðræn vandamál einstaklinga.
Jón Ársæll vann fyrir Stöð 2 í hátt í þrjá áratugi. Samkvæmt honum eru breytingar yndislegar og hluti af lífi okkar. „Ég gaf Stöð 2 allt sem ég átti. Ég fékk að kynnast landi og þjóð sem aldrei fyrr. Ég var svo heppinn að það sem ég gerði sló í gegn,“ segir hann.
Hann þróar nú þætti ásamt góðum hópi fólks sem verða á dagskrá RÚV næsta vetur. „Þættirnir verða allir svipaðir í útliti og gerð en viðfangsefni þáttanna verða ólík,“ segir Jón.
Fyrsta viðfangsefnið eru geðrænir erfiðleikar fólks. Við tölum við fólk sem hefur gengið í gegnum ýmislegt á lífsleiðinni. Það fólk sem ég hef fengið til liðs við mig, sem hefur átt við slíkan vanda að stríða, hefur verið skemmtilegt þó að málið sé alvarlegt.
Jón segir verkefnið mjög gefandi, þunglyndi sé algengt á Íslandi og sjálfsmorðstíðni há — margt fólk, ekki síst ungt fólk, á við vanda að stríða. Samstarfsmaður Jóns til margra ára, Steingrímur J Þórðarsson, stjórnadi og myndatökumaður, kemur að verkefninu ásamt fjölda fólks.
Vinnuheiti þáttanna er Paradísarheimt. Nafnið er einmitt sótt í smiðju Halldórs Laxness eins og fyrri þættir hans, Sjálfstætt fólk. Ástæða þess að þættir hans heiti báðir eftir perlum Nóbelskáldsins er einföld að sögn Jóns: „Laxness er aðalkallinn, sá allra flottasti!“