Lögreglan í Neskaupstað notaði piparúða á ungmenni í bænum aðfararnótt laugardags. Tilgangurinn var að stöðva eftirpartí þar sem unglingar undir aldri neyttu áfengis. Þetta kemur fram á mbl.is og á vef RÚV.
Hópur af ungu fólki kom saman í Blúskjallaranum í Neskaupstað eftir árshátíðarball Verkmenntaskóla Austurlands. Þau tóku húsnæðið á leigu undir partí á eigin vegum fyrir og eftir árshátíðina. Eftir ballið fékk lögreglan tilkynningu um að unglingar sætu að drykkju í kjallaranum.
RÚV hefur eftir Óskari Þór Guðmundssyni, einum þriggja lögreglumanna sem komu að aðgerðinni, að lögregla hafi reynt að rýma svæðið í um 15 mínútur. Hann segir að viðstaddir hafi ekki brugðist við hótunum um sektir við óhlýðni og að maður sem vildi hvorki hlýða né segja til nafns hafi verið handtekinn. Ungmennin hafi þá gert aðsúg að lögreglu og þess vegna hafi piparúðanum verið beitt.
Anton Bragi Jónsson, nemandi í Verkmenntaskóla Austurlands, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi spurt hver leigði salinn en viðkomandi var ekki á staðnum.
Þá segja þeir fljótlega að partýið sé búið. Þá er einn sem stillir á lagið „Fuck the Police“, og skiljanlega fór það ekki vel í þá.
Elís Ármannsson, sem er einnig nemi í VMA, segir á vef RÚV að einn af partígestum hafi hótað einum lögreglumannanna kæru eftir að honum var ýtt. Hann segir að þá hafi lögreglumaðurinn grýtt manninum utan í vegg og þegar vinir drengsins mótmæltu hafi lögreglumaðurinn dregið upp piparúða og sprautað yfir viðstadda.
Talið er að fjórir til fimm drengir og ein stúlka hafi fengið úða í augun. Mikil reiði ku vera í bæjarfélaginu vegna hörku lögreglunnar. Samkvæmt frétt RÚV verður farið yfir upptökur úr myndavélum sem lögreglumennirnir báru og allt að 15 manns verða kærð fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.