Markaskorarinn Gary Martin, fótboltamaður í Víkingi Reykjavík, eyddi 200 þúsund krónum í að bjarga villikettinum Baldri ásamt Guðrúnu Dögg, unnustu sinni. Þetta kom fram í DV á dögunum.
Gary segir í DV að þau eigi tvo ketti úr Kattholti og villiköttinn Baldur sem þau björguðu. „Hann fékk að borða hjá okkur í hálft ár, en við máttum ekki snerta hann,“ segir hann.
Þetta var stór köttur, borðaði mikið, og leit alltaf út eins og hann hefði verið í slag, líklega réð hann yfir köttunum í hverfinu. Hann var alveg brjálaður, alltaf urrandi, greip matinn sem við skildum eftir handa honum og þaut svo burt.
Gary segir frá því þegar Baldur kom inn um glugga heima hjá þeim um nótt þegar stormur var að skella á. Hann lagðist örmagna á gólfið og var greinilega búinn að vera, að sögn Garys.
„Þetta var í fyrsta sinn sem við snertum hann og við sáum að það blæddi úr einum fæti. Við fórum með hann á dýraspítala og útlitið var svart. Hann var svo svakalega villtur að dýralæknirinn sá ekki annan kost í stöðunni en að svæfa hann,“ segir hann í DV.
„Við gátum ekki hugsað okkur það og greiddum um 200 þúsund krónur fyrir meðferðina sem hann þurfti. Þegar við komum heim fékk hann sérherbergi fyrir sig, þar jafnaði hann sig og við læddumst inn með mat handa honum.“
Baldur fór svo smám saman að treysta þeim og er í dag uppáhaldið hans. „Baldur er besti köttur í heimi. Að bjarga honum er það besta sem ég hef gert í lífinu. Það kostaði sitt en ég sé svo sannarlega ekki eftir peningunum,“ segir Gary í DV.
„Þetta er samt allt kærustunni minni að þakka, enginn nema hún hefði látið sér detta þetta í hug. Hún er frábær og hefur kennt mér mikið – ég hefði ekki gert þetta fyrir þremur árum.“