Fylgjendum Snorra Björnssonar ljósmyndara og rapparans Emmsjé Gauta á Snapchat brá eflaust í brún í dag þegar þeir virtust lenda í alvarlegum bílslysum í beinni útsendingu á Snapchat.
Sjá einnig: Skelfilega margir í símanum undir stýri, sjáðu nýtt myndband úr umferðinni í Reykjavík
Ekki er allt sem sýnist og um var að ræða herferðina Höldum fókus (#höldumfókus) sem er á vegum Símans og Samgöngustofu og unnin af Tjarnargötunni. Herferðin miðar að því að fá fólk til að hætta að nota síma undir stýri.
Engin íslensk tölfræði er til yfir hlutfall slysa sem verða vegna farsímanotkunar undir stýri en samkvæmt nýlegum breskum rannsóknum (National Safety Council) verður fjórða hvert umferðarslys vegna farsímanotkunar. Þetta kom fram í Fréttatímanum.
Snorri og Gauti sviðsettu slys við Miklubraut. Þar má nú sjá bíla á vegum átaksins uppstillta eins og hræðilegt slys hafi orðið. Hjörtu fólks slógu eflaust örar þegar það sá á Snapchat þá félaga skríða blóðuga úr bílum sínum. Fólk gat þó andað léttar þegar kom í ljós að slysin voru hluti af herferðinni Höldum fókus.
„Það er örugglega slatti af fólki að horfa á þetta undir stýri. Með því áframhaldi gæti það endað svona,“ sagði Snorri á Snapchat.