Auglýsing í Fréttablaðinu í dag frá íþróttadeild 365 hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. Auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan en á henni stilla sér upp tólf karlar úr íþróttadeildinni sem er sögð sú öflugasta á landinu.
Margrét Gauja Magnúsdóttir deilir auglýsingunni á Facebook og segist hafa hlegið upphátt. „Stöð 2 algerlega með puttann á púlsinum og með það á hreinu að konur vita ekkert um íþróttir,“ segir hún.
Blaðamaðurinn Sunna Valgerðardóttir deilir einnig myndinni. „Verið karlar, ráðið karla og höfðið til karla,“ segir hún.
En var í alvörunni enginn sem sagði að þetta væri mögulega ekki góð hugmynd? Bara svona upp á PR, fyrst jafnrétti er ekki option.
Fjörugar umræður hafa skapast um auglýsinunga á samfélagsmiðlum. Örvar Þór Guðmundsson veltir fyrir sér hvort konur séu hreinlega ekki að sækjast eftir störfum á íþróttadeild 365.
„Í morgun var ég að átta mig á því að það eru bara konur sem vinna á deildinni í leikskólanum hjá stelpunni minni. Á ég að hlaða í status útaf því og öskra ógeðslegt samfélag?“ spyr hann.
Loks spyr Ása Marin af hverju Helena Ólafsdóttir sé ekki á myndinni en hún stýrir nýjum markaþætti um Pepsi deild kvenna sem verður á dagskrá Stöðvar 2 sport í sumar.