Auglýsing

Mamma bjargaði vinningstappa frá því að hafna í endurvinnslu

Ferð Önnu Maríu Ómarsdóttur á EM í Frakklandi var hársbreidd frá því að lenda í endurvinnslu en hún getur þakkað mömmu sinni, Ingveldi Gísladóttur, fyrir að bjarga flösku með vinningstappa. Anna María og kærastinn hennar verða því á leikvanginum í St. Etienne þann 14. júní þegar íslenska landsliðið leikur fyrsta leikinn sinn á mótinu gegn Portúgal.

Anna María, sem er 25 ára og starfar á leikskólanum Arnarsmára í Kópavogi, vann ferð fyrir tvo á EM í tappaleik Coca-Cola en tvær flöskur af kóki fylgdu með hamborgaratilboðum sem hún og kærastinn hennar, Bjarki Gunnarsson, keyptu á Bad Boys Burgers and Grill á Vesturlandsvegi í maí.

Þau voru lítið að spá í hvort vinningar gætu leynst í tappanum og tómar flöskurnar höfðu legið í bíl hennar í nokkra daga þar til nýlega þegar hún og Bjarki fóru í heimsókn til mömmu Önnu Maríu. Anna María tók flöskurnar tvær með sér inn úr bílnum og henti þeim í poka sem Ingveldur notaði undir tómar flöskur og dósir.

„Mamma gamla tók flöskurnar upp úr honum og fór í tölvuna og athugaði hvort það væri vinningur í töppunum,“ segir Ingveldur.

Þá kom í ljós að það var vinningur í öðrum þeirra og ég hugsaði „ohh dí er hún búin að vinna?“

Hún sýndi Önnu Maríu og Bjarka tölvuskjáinn og sagði: „sjáið, þið eigið þennan tappa!“ Hún segir þau varla hafa trúað þessu en í kjölfarið hafi tekið við eintóm gleði.

Önnu Maríu brá þegar hún sá á tölvuskjánum. „Við störðum á skjáinn þar sem stóð einfaldlega „Til hamingju, þú hefur unnið ferð á EM.“ Svo vorum við svo hissa að við sögðum eiginlega ekki neitt, þetta var svo óraunverulegt,“ segit hún.

„Ég hef aldrei unnið í svona leik áður. Svo skoðuðum við síðuna aftur og aftur og þá varð þetta mjög raunverulegt.“

Anna María og Bjarki halda til Frakklands mánudaginn 13. júní og koma heim tveimur dögum síðar. Þau höfðu ekki ætlað á EM í Frakklandi en eru gríðarlega ánægð með vinninginn.

„Bjarki er mikill fótboltaunnandi og það var draumur hjá honum að fara á EM. Ég viðurkenni að ég er ekki mikill fótboltaaðdáandi en ég varð það við að vinna þessa ferð og við hlökkum mikið til að fara,“ segir Anna María

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing