Auglýsing

Vill ekki kaupa áskrift að Stöð 2 til að horfa á eina þáttaröð: „Hvaða djöflasýra er þetta?“

Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari Skálmaldar, segir mjög flókið, ósanngjarnt og brjálæðislega dýrt að þurfa að kaupa áskrift af Stöð 2 í heilan mánuð til að horfa á þáttaröðina Rapp í Reykjavík, sem var sýnd á stöðinni í vor. Þetta kemur fram í pistli Snæbjörns í Stundinni.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að búið væri að hala niður þættinum Ghetto betur rúmlega 5.000 sinnum á vefsíðunni Deildu.net. Þættinum Rapp í Reykjavík var búið að hala niður tæplega 2.000 sinnum á sömu síðu.

Í pistlinum segist Snæbjörn ekki hafa áhuga á áskrift að Stöð 2 en að hann langi að sjá þáttaröðina Rapp í Reykjavík. „Sex þættir um íslenska tónlist? Þvílík snilld! Stiklur og tíserar sem ég hef séð á netinu heilla mig gríðarlega,“ skrifar hann.

Hvað á ég þá að gera? Staðreyndin er sú að ég get með engu móti horft löglega á Rapp í Reykjavík nema gegn því að greiða fyrir dagskrá Stöðvar 2.

Eftir að hafa fundið þættina í myndlykli móður sinnar komst Snæbjörn að því að til að fá aðgang að þeim þarf hann að vera áskrifandi að Skemmtipakkanum, Stórapakkanum eða Risapakkanum.

„En þá fæ ég þetta frítt! Einmitt. „Frítt“. Sem sagt. Ef ég vil horfa á Rapp í Reykjavík í dag þarf ég að kaupa Skemmtipakkann, sem er ódýrasta áskriftin, og fá meðfylgjandi aðgang að Stöð 2 maraþoni,“ skrifar hann og bætir við að þættirnir sex myndu kosta hann rúmlega 16 þúsund krónur.

„Til viðbótar við maraþonið fæ ég með í kaupunum Stöð 3, bíóstöð, krakkastöð, tónlistarstöð, og eitthvað sem heitir Vild. Hvaða djöflasýra er þetta?“

Jakob Frímann Magnússon, formaður stjórnar STEF, sagði í samtali við Fréttablaðið ólöglega niðurhalið á Ghettó betur væri sambærilegt við það að 5.000 manns létu greipar sópa um sælgætisbarinn í Hagkaupum. „Þarna er stjórnarskrárvarinn eignarréttur á framleiðslu og þetta gerist og það er ekkert aðhafst,“ sagði hann.

Snæbjörn setur líkingu Jakobs í eigið samhengi í pistlinum. „Setjum sem svo að mig vanti buxur. Ég fer í fatabúð og finn mér buxur sem mér líkar,“ skrifar hann.

„Ég spyr hvað þær kosti og fæ þær upplýsingar að ég geti keypt frábæran pakka sem inniheldur buxurnar, peysu, tvo hlýraboli, ársbirgðir af nælonsokkabuxum, smekkbuxur í extra small, bleika lambhúshettu og öryggishjálm fyrir aðeins 500.000 krónur.“

Snæbjörn segir útfærsluna henta bjánum og sérvitringum. Hann vantar hins vegar bara buxurnar og spyr hvað þær kosti. „Það er ekki hægt að kaupa bara buxurnar. Þú verður að kaupa allan pakkann og eiga svo Stöð 3 og 
Vild uppi í skáp þar til mögulega einhverjum hentar að nýta sér þetta drasl,“ skrifar hann.

„Ég er ekki að réttlæta þjófnað, og auðvitað myndi ég aldrei stela buxunum. Og þetta er alls ekki bundið við Stöð 2. En hvernig eru þetta eðlileg viðskipti? Ég fæ þá tilfinningu að það sé verið að níðast á mér og hálfpartinn svindla.

Það gerir samviskunni enn auðveldara að hlaða þáttunum niður ólöglega. Við fáum á tilfinninguna að við séum að stela af fólki sem hvort eð eru drullusokkar. Gerið íslenska sjónvarpsþætti, kvikmyndir, tónlist og hvaðeina aðgengilegt og rukkið sanngjarnt verð fyrir. Ég fullyrði að við græðum öll þegar upp verður staðið.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing