Auglýsing

Möguleikar Íslands á að fara áfram — með hverjum áttu að halda?

Uppfært sunnudag kl. 21:26: A-riðill: Albanía vann Rúmeníu og er því með þrjú stig og -2 í markatölu. Strax orðið mjög líklegt að jafntefli dugi á móti Austurríki en jafnframt mjög ólíklegt að tvö stig komi Íslandi áfram.

Nú er mikið spáð í EM spilin og staðan sannarlega flókin. Ísland fer áfram með sigri á Austurríki í síðasta leik, á góða möguleika á að fara áfram með jafntefli og meira að segja örlitla möguleika á að fara áfram með eins marks tapi gegn Austurríki.

Í þessari grein fer ég all ítarlega ofan í saumana á möguleikum Íslands á að halda áfram í 16 liða úrslitin þegar einni umferð er ólokið í riðlunum sex.

Byrjum á að koma nokkrum forsendum á hreint:

Efstu tvö liðin í riðlunum sex komast beint áfram.
Fjögur af þeim sex liðum sem lenda í þriðja sæti í riðlunum komast einnig áfram.

Ef tvö lið verða jöfn að stigum Í RIÐLI er skorið úr um sæti með:

  1. Innbyrðis viðureign (ef ég skil Sky Sports rétt – ekki viss um þetta)
  2. Markatölu
  3. Skoruðum mörkum (fleiri eru betri)
  4. Vítaspyrnukeppni (ef þau spila síðasta leikinn á móti hvoru öðru og allt er jafnt)
  5. Agapunktar (gult spjald 1, rautt 3, færri stig vinna)
  6. Kastað upp á sætið

Til að skera úr um hvaða fjögur lið í þriðja sæti komast áfram í 16 liða úrslit eru borin saman:

  1. Stig
  2. Markatala
  3. Skoruð mörk
  4. Agapunktar (sjá að ofan)
  5. Staða á UEFA styrkleikalista

Heimild: Sky Sports

Skoðum nú möguleika Íslands í stöðunni þegar ein umferð er eftir. Í henni spilar Ísland við Austurríki og Ungverjaland við Portúgal.

ÍSLAND VINNUR AUSTURRÍKI – Förum alltaf áfram í 16 liða úrslit

Við endum með fimm stig í riðlinum og a.m.k. plús einn í markatölu og komumst áfram í 1. eða 2. sæti riðils. Ísland verður í efsta sæti riðils ef Portúgal vinnur Ungverja með sama mun og skorar ekki fleiri mörk en við. Eða, ef markatala ÍSL og POR verður jöfn, Ísland fær færri agapunkta (ef t.d. Ronaldo lætur reka sig útaf og fullkomnar karmað sem hann bað um að fá í hausinn).

Ísland getur líka náð efsta sæti ef við vinnum Austurríki með tveimur mörkum og Ungverjar gera jafntefli við Portúgal og skora ekki fleiri mörk en við samtals.

Annars verðum við í öðru sæti í riðlinum á eftir Portúgal eða Ungverjum.

ÍSLAND GERIR JAFNTEFLI VIÐ AUSTURRÍKI – Góðar líkur á 16 liða úrslitum

Við endum riðilinn með þrjú stig, markatölu 0 og amk 2 mörk skoruð.

Ísland lendir í öðru sæti riðils ef Ungverjar vinna Portúgal eða Ungverjar og Portúgal gera jafntefli og við skorum fleiri mörk en Portúgal (eða fáum færri agapunkta ef markatala er hnífjöfn).

Ísland lendir í þriðja sæti riðilsins ef Portúgal vinnur Ungverja eða þau gera markajafntefli sem færir Portúgal upp fyrir Ísland á skoruðum mörkum eða agapunktum (ef markatala er hnífjöfn).

DUGA ÞRJÚ STIG OG JÖFN MARKATALA Í 3. SÆTI TIL AÐ KOMAST ÁFRAM?

Til að komast áfram með þrjú stig í þriðja sæti riðilsins þurfa a.m.k. tvö lið úr hinum fimm riðlunum að vera með verri árangur en Ísland. Skoðum nú stöðuna í riðlunum hverjum af öðrum:

A-riðill – núverandi staða:
3. Rúmenía 1 stig, markatala 2-3
4. Albanía 0 stig, markatala 0-3

Síðasta umferð: Rúmenía – Albanía

Ef sá leikur fer jafntefli eða Albanía vinnur með einu eða tveimur mörkum lendir Ísland fyrir ofan liðið í þriðja sæti. Ef Albanía vinnur með þremur mörkum gilda skoruð mörk og svo agapunktar.

Óskaúrslit: Jafntefli, helst 0-0 , því þá á Ísland möguleika á að verða fyrir ofan Rúmeníu með eins marks tapi fyrir Austurríki, fari svo að 2 stig dugi í 3. sæti riðils okkar.

B-riðill – núverandi staða:
2. Wales 3 stig, markatala 3-3
3. Slóvakía 3 stig, markatala 3-3
4. Rússland 1 stig, markatala 2-3

Síðasta umferð: Rússar – Wales, Slóvakía – England.

Ef Slóvakía tapar fyrir Englandi lendir Ísland fyrir ofan liðið í 3. sæti, sama hvernig leikur Rússa og Wales fer. Ef Wales vinnur eða gerir jafntefli verður Slóvakía í þriðja sæti með 3 stig og neikvæða markatölu. Ef Rússar vinna verða Wales og Slóvakía jöfn í 3-4 sæti, bæði með 3 stig og neikvæða markatölu og Ísland þar með fyrir ofan bæði lið.

Óskaúrslit: Slóvakía tapar fyrir Englandi.

C-riðill – núverandi staða:
3. N-Írland 3 stig, markatala 2-1
4. Úkraína 0 stig, markatala 0-4

Síðasta umferð: N-Írar – Þjóðverjar, Úkraína – Pólland.

Ef Þjóðverjar vinna N-Íra með tveimur mörkum lendir Ísland fyrir ofan liðið í 3. Sæti í C-riðli, nema Úkraína vinni Pólverja með fjórum mörkum.

Ef Þjóðverjar vinna N-Íra með einu marki enda N-Írar í 3. sæti með þrjú stig og jafna markatölu eins og Ísland og skoruð mörk ráða úrslitum (og svo agapunktar og svo staða á styrkleikalista UEFA).

Óskaúrslit: Þjóðverjar vinna N-Íra með a.m.k. tveimur mörkum og Úkraína vinnur ekki með fjórum mörkum.

D-riðill – núverandi staða:
3. Tékkland 1 stig, markatala 2-3
4. Tyrkland 0 stig, markatala 0-4

Síðasta umferð: Tékkar – Tyrkir.

Ef sá leikur fer jafntefli eða Tyrkir vinna með 3 mörkum eða minna verða Íslendingar fyrir ofan liðið í þriðja sæti á þremur stigum eða hlutlausri markatölu.

Óskaúrslit: Tyrkir og Tékkar gera 0-0 jafntefli, því þá á Ísland möguleika á að verða fyrir ofan Tékkland með eins marks tapi fyrir Austurríki, fari svo að 2 stig dugi í 3. sæti riðils okkar.

E-riðill – núverandi staða:
2. Belgía 3 stig, markatala 3-2
3. Svíþjóð 1 stig, markatala 1-2
4. Írland 1 stig, markatala 1-4

Síðasta umferð: Svíar – Belgar og Ítalir – Írar.

Ef hvorki Svíþjóð né Írar vinna sinn leik lendir Ísland fyrir ofan liðið í 3. Sæti.

Ef Svíar vinna Belga með tveimur mörkum og Írar vinna ekki Ítalíu lenda Belgar í 3. sæti með 3 stig og neikvæða markatölu og þar með fyrir neðan Íslendinga.

Óskaúrslit: Írland og Svíþjóð tapa sínum leikjum og verða jöfn í 3. sæti með 1 stig. Þá myndi Ísland lenda fyrir ofan bæði lið með tvö stig, fari svo ólíklega að 2 stig dugi í 3. sæti riðilsins.

TVÖ STIG GETA DUGAÐ TIL AÐ KOMAST ÁFRAM!

Það er mögulegt að eins marks tap gegn Austurríki dugi til að komast áfram í keppninni. Þá endum við með 2 stig og markatölu -1, og að minnsta kosti 2 mörk skoruð.

Til þess að svo fari, þ.e. að við náum 3. sæti riðilsins og lendum yfir tveimur af þeim fimm liðum sem lenda í 3. sæti riðla A-E þarf ýmislegt að ganga upp:

Í fyrsta lagi þurfa Ungverjar að sigra Portúgali og við að skora fleiri mörk (eða jafn mörg og fá færri agapunkta) en Portúgalir, þ.a. við náum 3. sæti riðilsins fyrir ofan Portúgal.

Í öðru lagi þurfa tveir af þremur riðlum að spilast á eftirfarandi hátt:

A-RIÐILL:

  • Rúmenar og Albanir að gera jafntefli. Þá enda Rúmenar með tvö stig og -1 í markatölu og við þurfum því að skora fleiri mörk (eða jafn mörg og fá færri agapunkta) en Rúmenar.

D-RIÐILL

  • Tékkar og Tyrkir gera jafntefli. Þá enda Tékkar með tvö stig og -1 í markatölu og við þurfum að skora fleiri mörk (eða jafn mörg og fá færri agapunkta) en Tékkar.

E-RIÐILL

  • Svíar tapa sínum leik og Írar tapa sínum leik. Þá enda þau í 3-4 sæti með 1 stig og við fyrir ofan þau með tvö stig. EÐA:
  • Svíar tapa sínum leik og Írar gera jafntefli við Ítali. Þá eru Írar í 3. sæti með 2 stig og markatölu -3 og við fyrir ofan þá. EÐA:
  • Írar tapa/gera jafntefli og Svíar gera jafntefli. Þá enda Svíar í 3. sæti með 2 stig og markatölu -1. Við þurfum að skora fleiri mörk (eða jafn mörg og fá færri agapunkta) en Svíar.

Nú er bara að fylgjast vel með og vonast til að óskaúrslitin detti inn eftir því sem líður á vikuna.

Greinin var birt fyrst á Facebook en er birt á Nútímanum með leyfi höfundar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing