Donald Trump sendi íslenskum þingmönnum póst í dag og óskaði eftir að þeir styrktu framboð hans í væntanlegum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Bandarískir fjölmiðlar fjalla um söfnun Trump sem hófst þegar það kom í ljós að Hillary Clinton situr á talsvert digrari kosningasjóðum en hann.
Katrín Jakobsdóttir er á meðal þeirra sem fékk póstinn, sem Nútíminn hefur undir höndum. Pósturinn barst úr tölvupóstfangi Trump og tenglarnir í póstinum vísar á raunverulega söfnunarsíðu framboðs repúblikans orðljóta. Það verður því ekki betur séð en að pósturinn hafi borist frá framboð Donalds Trump en ekki svikahröppum, sem nóg er af á internetinu.
Spurð hvort hún ætli að styrkja framboðið segir Katrín ákveðin: „Nei!“ — en af hverju ekki? „Hans málflutningur hefur ekki beinlínis hrifið mig,“ segir hún.
Þannig að hann lendir ekki á listanum yfir góð málefni sem verðugt er að styrkja.
Nútíminn hefur heimildir fyrir því að fleiri þingmenn hafi fengið sama póst frá Donald Trump. Hann fetar vafasamar slóðir með póstinum þar sem styrkir frá erlendum ríkisborgurum eru bannaðir samkvæmt bandarískum kosningalögum.
Vefur Politico fjallar um söfnun Trump sem er sú fyrsta sem hann hrindir úr vör. Samkvæmt umfjöllun vefsins hófst söfnunin eftir að það kom í ljós að Hillary Clinton situr á 42 milljón dala kosningasjóði en sjóður Trump inniheldur aðeins 1,3 milljónir dala.