Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja 2016 er komið út. Hlustaðu á lagið hér fyrir neðan.
Í tilkynningu frá Halldóri Gunnari Pálssyni, höfundi lagsins, kemur fram að lagið hafi verið í smíðum síðan í desember á síðasta ári. „Lagið heitir „Ástin á sér stað“ og söngvarar eru þeir Friðrik Dór Jónsson og Sverrir Bergmann Magnússon. Textasmíð var í höndum Magnúsar Þór Sigmundssonar,“ segir þar.
Hljómsveitin Albatross sér um hljóðfæraleik í laginu. „Er hér um að ræða annað þjóðhátíðarlag þeirra Halldórs og Magnúsar, en þeir sömdu einnig saman lagið „Þar sem hjartað slær“, þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja árið 2012,“ segir í tilkynningunni.
Lagið og textinn er innblásið af 40 ára ástarsögu úr Eyjum og af öllum þeim sem orðið hafa ástfangnir á þjóðhátíð, hvort sem það er af lífinu, fólkinu eða stemningunni. Ástin á sér stað í Herjólfsdal.
Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan. Myndbandinu er leikstýrt af Davíð Arnari Oddgeirssyni hjá Mint Production.