Búast má við að stór meirihluti þjóðarinnar fylgist með leik Íslands og Englands á EM í fótbolta í Frakklandi í kvöld. Þúsundir Íslendinga eru staddir í Nice þar sem leikurinn fer fram og það kæmi ekki á óvart ef eiginlega allir sem eftir eru á landinu fylgist með leiknum í beinni útsendingu í sjónvarpinu.
Allir nema hann Jón Kr. sem hringdi inn í Virka morgna á Rás 2 í morgun. Hlustaðu á brot úr þættinum hér fyrir ofan.
Þau Gunna Dís og Gunnar Hansson voru að taka við óskalögum þegar Jón hringdi inn. Spurður hvort hann ætlaði að horfa á leikinn sagði hann: „Nei.“
Gunna og Gunnar voru skiljanlega hissa en Jóni var ekki haggað. „Gunna mín, þú gætir alveg eins hlaupið á Vatnajökul og verið þar bara ein. Ég hef ekki hugmynd um þessi mál,“ sagði hann ákveðinn.
Ég fékk ekki í vöggugjöf þessa bakteríu, skal ég segja þér. Enda eru nógu margir í henni. Mér skilst nú og heyrist að hálf þjóðin standi nú bara á haus.
Gunnar benti á að það væri nú ekki bara hálf þjóðin — leikir landsliðsins á EM væru með rúmlega 90% áhorf. „Þetta er ekki mín deild, sko,“ svaraði Jón.
„Ég hef sloppið við hana enda hef ég nóg að vesenast fyrir því. Það geta ekki allir verið í öllu.“
Hlustaðu á brot úr þættinum hér fyrir ofan.