Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson hefur birt á Facebook-síðu sinni myndband til heiðurs Hannesar Þórs Halldórssonar, markvarðar íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.
Hannes hefur staðið sig gríðarlega vel á EM í Frakklandi en Ísland mætir Englandi í sannkölluðum stórleik í kvöld. „Ég, rétt eins og öll íslenska þjóðin, er að rifna úr stolti yfir gengi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu,“ segir Jón.
Ég er svo heppinn að þekkja nokkra í liðinu og veit hversu mikið þeir hafa lagt á sig til að uppskera slíkan árangur. Einn af mínum góðu vinum er Hannes Þór Halldórsson sem vægast sagt hefur slegið í gegn í Frakklandi.
Jón og Hannes kynntust fyrir rúmum 14 árum í Verzlunarskólanum. „Og hef [ég] frá þeim tíma fylgst með öllum litlu skrefunum sem hann hefur tekið í átt að þeim stað sem hann er á í dag,“ segir Jón stoltur.
„Ferill þessa drengs er magnaður því þrátt fyrir að vera kosinn besti markvörður Shell-mótsins árið 1994 var leið hans á toppinn ansi hlykkjótt og hefur Hannes Halldorsson þurft að sigrast á mörgum hindrunum á sinni vegferð.“
Hannes klippti auglýsingu N1 sem inniheldur nýja útgáfu af laginu Gefðu allt sem þú átt, eftir Jón. Salka Sól flytur lagið sem Kristján Sturla Bjarnason útsetti en hingað til höfum við aðeins heyrt brot úr laginu.
„Í framhaldinu höfum við fengið urmul fyrirspurna um lagið í fullri lengd og nú er kominn tími á að svara því kalli,“ segir Jón.
„En þar sem lagið kennir okkur að trúa á draumana okkar fannst mér ekkert annað koma til greina en að setja saman myndband Hannesi til heiðurs og vil ég þakka Snorra Barón Jónssyni fyrir aðstoðina og auðvitað Allan Sigurðssyni fyrir að klippa það saman.“
Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.