Fátt annað en árangur Íslands á EM kemst að hjá þjóðinni þessa dagana. Það eru bókstaflega allir að horfa. Allir nema Margrét Einarsdóttir en hún hefur ekki horft á einn einasta leik Íslands á Evrópumótinu í knattspyrnu. Ástæða áhugaleysisins er mjög einföld en henni finnst fótbolti afskaplega leiðinlegur og sér ekki tilganginn í því að horfa á mótið.
„Mér finnst þetta það leiðinlegt að ég vil frekar gera eitthvað annað. Þetta eru rosalega margar mínútur sem fara til spillis hjá fólki sem horfir,“ segir hún í samtali við Nútímann.
Margrét játar að áhugaleysið valdi útskúfun úr samfélaginu. Hún tekur það þó ekki inn á sig þrátt fyrir að vera skömmuð reglulega fyrir það að horfa ekki.
Þetta er í raun mjög hættuleg skoðun að finnast fótboltinn leiðinlegur. Ég má ekki segja fólki að mér finnist þetta tímaeyðsla. Það er eins og það sé skylda landsmanna að horfa. Öllum á að finnast þetta gaman og allir eiga að horfa.
Margrét segir það vera gott fyrir alla að hún horfi ekki á mótið. Í gegnum tíðina tapaði Ísland í þau fáu skipti sem hún horfði á leiki. Að hennar sögn ætti landinn að vera henni þakklátur fyrir áhugaleysið og er árangur íslenska liðsins að hluta til henni að þakka.
Sjálf segist hún skilja stemninguna. Árangur liðsins er frábær og er hún mjög stolt af liðinu. Aðspurð gæti hún eytt nokkrum dýrmætum mínútum af lífi sínu í að horfa á fögnuðinn og klappið en ekki einni einustu í leikinn sjálfan.
Á meðan leikur Íslands á móti Englendingum stóð yfir horfði Margrét á The Ellen Show sem var að hennar sögn hin besta skemmtun. Einnig hefur hún farið í sund á meðan leikir standa yfir og segir það hafa verið dásamlegt þar sem hún hefur allan klefann og laugina út af fyrir sig.
Margrét er fullviss um að það verði mjög auðvelt að sleppa næsta leik Íslands gegn Frakklandi í átta liða úrslitum mótsins á sunndaginn.
„Ætli ég fari ekki bara út að borða á sunnudaginn, spurning samt hvort maður fái einhverja þjónustu á meðan leikurinn stendur yfir, ef ekki þá get ég treyst á Netflix.“