Auglýsing

Ég var með

Á sunnudagskvöldið fór ég á minn fyrsta fótboltaleik: Ísland/Frakkland. Mér líður svolítið eins og ég hafi heimsótt annan trúarsöfnuð en minn eigin. Það var margt sem minnti á trúariðkun í tengslum við þessa glænýju upplifun mína. Í trú vilja allir komast nær meistara sínum. Í fótbolta eru meistararnir heilt lið. Þeir eru hylltir og þeim er fagnað. Þeir eru lofsungnir og þeir þurfa að standa undir væntingum.

Á þá er vonað.

Ég var ein af þeim sem keyptu miða af manninum sem virðist hafa svindlað sér leið inn í peningaveski heilmargra íslendinga. Ég beið í röð eftir að komast í hóp þeirra sem kæmust inn í „himininn“. Þar vildi ég horfa á landsliðsmennina okkar syngja þjóðsönginn og spila fótbolta.
Ég sá þegar börn og fullorðnir áttuðu sig á því að þeir yrðu ekki með í gleðinni. Ég sá tárin og ég sá vonbrigðin.

Þegar um þrjár mínútur voru í leik og ég var viss um að ég yrði ein af þeim sem ekki kæmust á leikinn gerðist eitthvað það ótrúlegasta sem ég hef upplifað.

Maðurinn minn kom hlaupandi hraðar en ég hélt að hann gæti og togaði mig út úr röðinni og sagði mér að hlaupa. Við vorum komin með miða og geðshræringin var ótrúleg. Í grenjandi rigningu hljóp ég eins hratt og fætur toguðu og vissi að ég þyrfti að komast í gegnum stranga öryggisgæslu til þess að komast alla leið og þar sem ég stóð með hendurnar út til beggja hliða fyrir utan stærsta leikvang sem ég hef komið nálægt og franska öryggisgæslan þuklaði mig vel og vandlega heyrði ég íslenska þjóðsönginn óma um alla byggingu.

Ég tók undir sönginn eins hátt og ég gat og vonaði að strákarnir okkar heyrðu í mér. Ég fylltist slíku þjóðarstolti að eitt eða tvö tár blönduðust við regndropana á andlitinu á mér og ég vissi það: ÉG ER HÓLPIN!

Nokkur hundruð metrum fyrir aftan mig stóð hópurinn sem ekki var útvalinn. Íslendingarnir sem ekki fengu miða. Og þar var grátur og gnístran tanna. Ég hefði viljað taka þau öll með mér inn en það var því miður ekki hægt.

Við urðum að hlaupa mjög hratt í gegnum allan leikvanginn til þess að finna svæðið og sætið og þegar við áttuðum okkur á að við værum Frakklandsmegin og eins langt frá íslenska hópnum og hægt var urðu auðvitað örlítil vonbrigði en við urðum að láta það duga.

Við settumst og hvöttum þá. Strákana okkar. Áfram Ísland!

Í seinni hálfleik svindluðum við okkur í hóp okkar fólks. Þar var sko gaman að vera. Þegar ég stóð í miðjunni á íslenska áhorfendahópnum fann ég orku sem ég hef aldrei komist í kynni við. Gleðin, ástin, spennan og samheldnin var ólýsanleg. Orkan í íslenska stuðningshópnum er algjörlega mögnuð.

Þar sem ég skil ekki reglur fótboltans og veit ekki mun á aukaspyrnu og horni notaði ég tækifærið til þess að horfa í kringum mig. Allir bláklæddir og allir svo glaðir. Víkingaklappið sem við erum nú heimsfræg fyrir „HÚH!“ var óspart notað og allir voru svo jákvæðir og sammála.

Söngvarnir, hvatningin, trommurnar og öll þessi endalausa von. „Þið getið þetta strákar, ekki gefast upp“ var kallað og þeir gátu það. Þeir skoruðu tvö mörk og þá hélt ég að þakið færi af áhorfendastúkunnni.

Ég sogaði í mig áhrifum meistaranna og fylgjendum þeirra og heillaðist af gleðinni.

Ég klappaði þegar hinir klöppuðu, ég söng með og ég fagnaði.

Ég tilheyrði hóp sem var sammála um allt sem skipti máli á þessari stundu.

Ég var með.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa þetta kvöld og ég mun aldrei gleyma þessu.

Takk fyrir mig.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing