Kvikmyndin Transformers: The Last Knight verður tekin upp að hluta á Íslandi. Vefurinn Tformers greinir frá þessu en tökur fara einnig fram í Bandaríkjunum, Bretlandi og Írlandi.
Samkvæmt heimildum Nútímans hyggst leikstjórinn Michael Bay taka upp atriði í myndinni í Landmannalaugum í september og október næstkomandi. Þetta er fimmta myndin í Transformers-seríunni en myndirnar hafa malað gull í kvikmyndahúsum. Fyrstu fjórar myndirnar hafa þénað um 3,7 milljarða dali.
Mark Wahlberg, Laura Haddock og Anthony Hopkins fara með hlutverk í myndinni sem áætlað er að frumsýna í Bandaríkjunum 23. júní árið 2017.
Nútíminn heyrði í Ágústi Sigurðssyni, sveitarstjóra í Rangárþingi ytra. Hann kannaðist ekki við þessa tilteknu mynd en sagði að kvikmyndagerðarfólk væri reglulega á ferðinni í sveitarfélaginu — svo reglulega að sveitarfélagið hafi nýlega sett sérstakar reglur um komu slíkra hópa.
Michael Bay er þekktur fyrir að spara ekki sprengingarnar í kvikmyndum sínum og spurður hvort óskað hafi verið eftir leyfi fyrir því að sprengja upp Landmannalaugar sprakk sveitarstjórinn úr hlátri og sagði að það yrði aldrei leyft. „En það er gaman ef menn vilja nota náttúruna okkar,“ sagði hann léttur.
Kvikmyndavefurinn Screen Daily greindi frá því í febrúar að framleiðendur Transformers hefðu Bretland og Ísland í huga. Síðustu tvær myndirnir, Age of Extinction og Dark of the Moon, voru að stærstum hluta teknar upp í Bandaríkjunum en þetta er ekki í fyrsta skipti sem atriði úr Transformers verða tekin upp hér á Íslandi.
Upphafsatriðið úr Age of Extinction var tekið upp hér á landi og má sjá hér: