Um hvað snýst málið?
Kosningar verða í haust ef málefnin verða sett í öndvegi og þau kláruð. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Hvað er búið að gerast?
Málin sem Sigurður Ingi telur að þurfi að klára eru afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki, samspil séreignasparnaðar og verðtryggðra og óverðtryggðra lána, og húsnæðismál. Þá segir hann að þrjár tillögur liggi fyrir að mikilvægum breytingum á stjórnarskrá.
Sigurður Ingi segir að kjördagur þurfi að liggja fyrir með talsverðum fyrirvara. „Ég vænti þess að mjög fljótlega þegar þingið komi saman þá sjáum við hvort við séum ekki ennþá á sama trakki,“ segir hann á vef RÚv.
Heimildir Nútímans herma að tvær dagsetningar komi helst til greina fyrir kosningar: 22. og 29. október.
Hvað gerist næst?
Talsmenn minnihlutans segja að ekki sé hægt að hefja þingstörf að nýju eftir sumarfrí fyrr en fyrir liggi hvenær kosið verður í haust. Fyrsti þingfundur eftir sumarfrí hefur verið boðaður 15. ágúst næstkomandi.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.