Lögreglan í Vestmannaeyjum handtók tvo menn í gærkvöldi og lagði hald á um hundrað grömm af kókaíni, hundrað grömm af amfetamíni og 180 e-töflur. Talið er að ætlunin hafi verið að selja efnin á hátíðinni en söluandvirði efnanna er metið á þrjár milljónir króna.
RÚV greinir frá því að þetta sé stærsta fíkniefnamál sem komið hefur á borð lögreglu í sögu Þjóðhátíðar.
Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Vísi að mennirnir hafi gist fangageymslur. „Þeir fara væntanlega í skýrslutökur núna og svo sjáum við til hvort þeim verði sleppt,“ segir hann.
Við erum mjög ánægðir að hafa náð þessu svona snemma á hátíðinni og séð til þess að þetta hafi ekki farið í umferð.
Vísir greinir frá því að fjórir fíkniefnahundar séu á hátíðinni.