Gengið var í skrokk á meintum kynferðisafbrotamanni á Þjóðhátíð í Eyjum á laugardagskvöld. Þetta kemur fram á Vísi. Vísir greinir frá því að minnst tvö kynferðisbrot hafi átt sér stað á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Í öðru málanna var síðar gengið í skrokk á meintum geranda. Hann var í kjölfarið fluttur úr Herjólfsdal á börum og sendur með sjúkraflugi á Landsspítalann í Reykjavík. Samkvæmt frétt Vísis voru mörg vitni að þessu.
Hitt málið átti sér stað í Herjólfsdal nótt, samkvæmt Vísi. Ómögulegt er að fá þessi mál staðfest hjá lögreglu vegna yfirlýstrar stefnu Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, um að upplýsa ekki um kynferðisbrot.
RÚV greinir frá því að Þjóðhátíðin í Eyjum í ár hafi verið sú næst fjölmennasta frá upphafi að mati lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Talið er að um 15 þúsund gestir hafi verið á brekkusöngnum í gærkvöldi.