Um hvað snýst málið?
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í vikunni frumvarp um losun fjármagnshafta fyrir ríkisstjórn. Málið snýst um að losa um hörð og umfangsmikil höft á fjármagnshreyfingum einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi, sem hafa verið í gildi frá því í lok nóvember 2008 .
Þegar lögin taka gildi munu einstaklingar og fyrirtæki ekki þurfa að sækja um undanþágur hjá Seðlabankanum til að mega fjárfesta erlendis í jafn miklum mæli. Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að beiðnum um undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál muni fækka um 50-65 prósent eftir að lögin taka gildi.
Hvað er búið að gerast?
Um er að ræða þriðja skrefið í áætlun stjórnvalda í losun hafta. Fyrsta skrefið var uppgjör á slitabúum föllnu bankanna og annað skrefið var útboð fyrir aflandskrónueigendur til að vinna á snjóhengjunni svokölluðu.
Hvað gerist næst?
Íslensk fyrirtæki með alþjóðlega starfsemi munu geta starfað með auðveldari hætti. Dregið verður úr skilaskyldu á erlendum gjaldeyri og fjárfesting í erlendum fjármálagerningum er mestu gefin frjáls upp að ákveðnum mörkum.
Einstaklingar munu geta lagt inn á erlenda bankareikninga, geta keypt sér hús í útlöndum án leyfis frá Seðlabanka Íslands og þurfa ekki lengur að taka farseðil með sér í banka til að mega kaupa gjaldeyri.
En það verða samt sem áður áfram höft í landinu, þótt losað hafi verið um þau.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Þetta er svokölluð gestaörskýring frá Kjarnanum. Smelltu hér til að lesa umfjöllun Kjarnans um losun hafta.