Fótboltatímabilið er búið hjá sjónvarpsmanninum Gísla Marteini Baldurssyni. Gísli sleit hásin í vikulegum fótbolta í vikunni og verður í gifsi næstu sex til átta vikurnnar. Þetta kemur fram í Fréttatímanum.
Gísli er brattur í viðtali í Fréttatímanum. „Ég ætlaði að taka á sprett en þá slitnaði hásinin einfaldlega,“ segir hann.
Þetta verður fín tilraun að vera bíllaus, ekki bara með tvö börn og hund heldur líka á hækjum.
Gísli segir í Fréttatímanum að hann hafi búist við að lenda á skurðarborðinu, eins og er jafnan gert í enska boltanum. „En læknarnir fullyrtu að það væri ekki lengur besta úrræðið. Best væri að gera bara ekki neitt,“ segir hann.
„Þannig að fóturinn var settur í gifs og þannig verður hann í 6-8 vikur. Svo fer ég væntanlega í einhvers konar endurhæfingu. Ég labba nú og hjóla mikið svo það hlýtur að koma sér vel.“
Gísli spilar ekki meira á þessu tímabili og vill ekki gefa upp hvort hann sé búinn að leggja skóna á hilluna. „Við Eiður Smári tökum hvert síson fyrir sig og sjáum hvað gerist,“ segir hann í Fréttatímanum.