Gunnar Þórðarson, tónlistarmaður úr Keflavík, hefur óskað eftir því að lagið hans, Gamli bærinn minn, verði ekki flutt við flugeldasýningu á laugardagskvöldi Ljósanætur í ár. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.
Gunnar óskaði eftir þessu við bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ en lagið hefur verið flutt á meðan flugeldasýningin stendur yfir undanfarin ár. Ljósanótt fer fram 1. til 4. september en hátíðin var fyrst haldin árið 2000. Hátíðinni lýkur ávallt með lýsingu Bergsins og glæsilegri flugeldasýningu.
Í tilkynningu sem birt var á vef Víkufrétta segir Gunnar að samskipti fjölskyldu sinnar við eina af undirstofnunum Reykjanesbæjar séu með þeim ólíkindum að hann bannar flutning lagsins á Ljósanótt. „Þetta er ekki gamli bærinn minn,“ segir hann.