Aðdáendur Justins Bieber hafa í hótunum við Hönnuh Jane Cohen, blaðamann á Grapevine, eftir að hún skrifaði harðorða gagnrýni um tónleika kanadísku poppstjörnunnar í Kórnum í Kópavogi í vikunni. Þetta kemur fram á vef DV.
Fyrirsögnin á umfjöllun Hönnuh um tónleikana er: „Fuck You, Justin Bieber“ og segist hún hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með tónleikana. Hún er mikill aðdáandi Bieber og segir frammistöðu hans í Kópavogi hafa verið móðgandi, meðal annars vegna þess að hann mæmaði stóran hluta laganna að hennar sögn og dansaði illa.
Sjá einnig: Þetta er uppáhalds augnablikið okkar úr fjölmiðlum eftir að Justin Bieber kom til landsins
Í færslu á Facebook-síðu sinni segist Hannah hafa lært sína lexíu og að hún ætli aldrei aftur að abbast upp á 14 ára stelpur aftur. „Beliebers eru klikkaðir. Pósthólfið mitt má hvíla í friði,“ segir hún.
Í viðtali á vef DV segist hún hafa fengið hótanir frá 14 ára aðdáendum Bieber. „Ég hef aldrei vitað annað eins,“ segir hún.
Ég fékk fjölmargar hótanir, meðal annars frá fjórtán ára stúlkum um að ég skyldi passa mig í miðbænum um helgar. Miðað við aldur þeirra þá þarf ég að hafa áhyggjur eftir svona sex ár.
Hún segist í samtali við DV einnig hafa fengið skilaboð frá málaefnalegum tónlistargestum sem hafi svipaðar skoðanir á tónleikum popparans. „Það er að minnsta kosti ljóst að fólk hefur miklar skoðanir á þessum tónlistarmanni,“ segir hún.