Auglýsing

Skólameistari Kvennó hélt að það væru aðallega strákar sem tækju í vörina

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans, stóð alltaf í þeirri trú að það væru piltar sem tækju í vörina en fáar stúlkur. Nú hefur hann aftur á móti fengið vísbendingar um að útbreiðsla munntóbaksneyslu meðal stúlkna sé orðin veruleg. Þetta kemur fram í frétt DV.

Hjalti sendi nemendur skólans tölvupóst þar sem hann minnir þá á skólareglur sem kveða meðal annars á um að notkun hvers kyns tóbaks, þar með talið reyktóbaks, neftóbaks og munntóbaks, sé stranglega bönnuð í húsakynnum skólans, á lóð hans og samkomum og ferðum á vegum hans.

Það vakti athygli nemenda að Hjalti tók sérstaklega fram að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með það hversu margar stúlkur virðast vera farnar að nota munntóbak. „Loks langar mig að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það hversu margar stúlkur virðast vera farnar að nota munntóbak,“ sagði hann í tölvupóstinum.

„Ég er búinn sem skólastjóri að berjast gegn tóbaksnotkun í mörg ár. Ég hef alltaf verið þeirrar trúar að það væru piltar sem tækju í vörina og staðið í þeirri trú að fáar stúlkur notuðu munntóbak. Nú hef ég fengið vísbendingar um að útbreiðsla munntóbaksneyslu meðal stúlkna sé orðin veruleg. Það kemur mér á óvart og auðvitað veldur það mér vonbrigðum,“ segir hann í samtali við DV.

„Það voru einhverjar stúlkur sem misskildu mig, en auðvitað var ég að lýsa yfir almennum vonbrigðum á útbreiðslu munntóbaks. Það er ekki svo að skilja að strákar megi frekar taka í vörina,“ segir Hjalti einnig og bætir við að hann hafi sent nemendum annan tölvupóst þar sem hann áréttaði þetta.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing