Stjórn knattspyrnudeildar HK hefur beðist afsökunar á því að pissað var yfir fána Breiðabliks á lokahófi HK um helgina. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef HK. Myndir og myndbönd náðust af atvikinu sem fótboltavefurinn 433.is greindi frá í gær.
Í yfirlýsingunni kemur fram að HK harmi atvikið og að umræddur fáni hafi verið þveginn af HK-ingum. „Framkoma af þessum toga er hvorki sæmandi né í samræmi við góðan anda og gott samstarf félaganna tveggja,“ segir þar.
Ekki er ljóst hverjir stóðu að þessu athæfi en stjórn knattspyrnudeildar HK hefur í hyggju að bregðast við þessu með því að ítreka við félagsmenn sína og iðkendur að siðareglur félagsins skuli hafðar í heiðri öllum stundum.
Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að framkoma af þessum toga verði ekki liðin. „Eftir að atvikið varð ljóst var umræddur fáni Breiðabliks þveginn af HK-ingum og dreginn að húni á ný,“ segir þar. „Stjórn knattspyrnudeildar HK biður alla Blika innilega afsökunar á þessu atviki.