Strákarnir í landsliðinu í fótbolta eru flestir í FIFA 17, þó landsliðið sé fjarri góðu gamni. Gylfi Sigurðsson er með hæstu einkunnina af íslensku leikmönnunum.
Sjá einnig: Vonsviknir grunnskólakrakkar gagnrýna KSÍ: „Mér finnst þetta hræðilegt — algjör skandall!“
Spenntir spilarar þurfa ekki að örvænta þó KSÍ hafi ekki tekið boði tölvuleikjaframleiðandans EA Sports um að karlalandsliðið verði á meðal liða í FIFA 17. Fjölmargir íslenskir leikmenn spila með liðum víða í Evrópu og eru því í FIFA 17.
Sex landsliðsmenn raða sér í efstu sætin á styrkleikalistanum yfir íslensku leikmennina í leiknum
Arnór Ingvi Traustason og Jóhann Berg fylgja fast á eftir og síðan raða sér Viðar Örn Kjartansson, Sverrir Ingi Ingason og Rúrik Gíslason. Sjáðu listann yfir leikmennina hér.
Nútíminn sagði fyrstur fjölmiðla frá málinu í síðustu viku. Í fréttinni kom fram að áhugi hafi verið fyrir því að hafa Ísland með í FIFA 17 en að samningar hafi ekki náðst milli EA Sports og KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði í samtali við Nútímann að EA Sports hafi boðið lága fjárhæð fyrir réttindin, lítilræði sem KSÍ sætti sig ekki við. Síðar kom í ljós að umrædd upphæð var um 1,7 milljónir króna.
Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um málið og óskað eftir viðbrögðum frá EA Sports. Í umfjöllun The Guardian kemur fram að fyrirtækið tjái sig ekki um einstaka samninga.
David Rutter, yfirframleiðandi FIFA-leikjanna, segir hins vegar að samningarnir sem gerðir eru við knattspyrnusambönd og lið séu mikilvægur og krefjandi hluti af framleiðsluferlinu.
Við erum með metnaðarfullt lið sem heldur utan um leyfin fyrir liðum, deildum og samstarfsaðilum. Ferlið er stundum einfalt og stundum flókið.
Á miðvikudagsmorgun beið Geirs tölvupóstur frá EA Sports en fyrirtækið hafði orðið vart við umræðuna daginn áður og vildi hefja viðræður við KSÍ um þátttöku Íslands í FIFA18.
Geir sagði í kjölfarið að nú hefði félagið rúman tíma til að semja. Hann segir að markmið beggja aðila sé að bæði karla- og kvennaliðið verði með í næsta leik.
FIFA 17 kemur út 29. september næstkomandi.