Um hvað snýst málið?
Hagstofa Íslands klúðraði útreikningum á vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu, með þeim afleiðingum að hún var vanmetin í hálft ár. Þessi mistök hafa nú verið leiðrétt og vísitalan hækkað um tæp 0,5 prósent á milli mánaða.
Þetta þýðir líka að verðbólga hefur verið verulega vanmetin undanfarið hálft ár. Eftir að leiðrétt var fyrir mistökunum hækkaði verðbólgan úr 0,9 prósent í ágúst í 1,8 prósent í september.
Hvað er búið að gerast?
Áhrif mistakanna eru víðtæk. Þeir sem tóku verðtryggð húsnæðislán frá mars og fram í september þurfa t.d. að greiða verðbætur fyrir fortíðarverðbólgu.
Þeir sem ætla að taka verðtryggð húsnæðislán ættu að bíða með það þangað til að búið er að „rukka“ uppsöfnuðu verðbæturnar, til að koma í veg fyrir að þurfa að borga þær að óþörfu.
Verðbólguálag skuldabréfa hefur hækkað skarpt, spár um frekari vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands hafa verið dregnar til baka og vextir óverðtryggðra lána hækka.
Hvað gerist næst?
Íslenskir lántakendur borga fyrir fortíðarverðbólguna. Sumir þeirra greiða umfram það sem þeir hefðu átt að gera.
Og stýrivextir Seðlabankans lækka líklega ekki meira í bili. Hagstofa Íslands segir að sér „þykir miður“ að mistök hafi orðið.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Þetta er svokölluð gestaörskýring frá Kjarnanum.