Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, skaut á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, í fimmtán mínútna langri ræðu sinni á flokksþingi flokksins sem hófst í morgun.
Sigmundur Davíð fór um víðan völl í klukkustundar langri ræðu sinni.
Sigurður Ingi sækist líkt og Sigmundur Davíð eftir formannsembætti flokksins en kosið verður á morgun, sunnudag.
Örskýring: Bíddu nú við! Af hverju er Sigmundur Davíð svona pirraður út í Sigurð Inga?
Sigurður Ingi sagði að menn þyrftu að geta séð hlutina með augum annarra
Sigurði Inga var tíðrætt um traust og hversu erfitt það væri að endurheimta slíkt traust í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins. Menn þyrftu fyrst að líta í eigin barm og vera færir um að sjá hlutina með augum annarra. Sjálfur myndi hann aldrei kenna vinum sínum um eitthvað sem þeir bentu honum á og verður að telja ljóst að þar hafi hann verið að vísa til Sigmundar Davíðs og þannig skjóta á hann.
Hann sagði það ekki í anda flokksins að honum sem forsætisráðherra hefðu verið skammtaðar 15 mínútur einhliða af formanni flokksins.
Sigurður Ingi sagði að í byrjun apríl hefði allt stefnt í það að dagar ríkisstjórnarinnar væru taldir. Það hefði ekki verið sjálfgefið þegar hann tók verkefnið að sér að það myndi takast. En flokkurinn hefði náð vopnum sínum aftur og kannski gott betur – ólgan hefði horfið og traust aukist. Ekki bara milli stjórnarflokkanna heldur líka stjórnarandstöðuflokkanna. „Þetta tókst vegna forystu okkar,“ sagði hann.
Sigmundi þykir leitt að ráðist hafi verið á sig, fjölskylduna og flokksmenn
Sigmundur sagði að undanfarna mánuði hefði legið þungt á honum hversu hart ráðist hefði verið að á fjölskyldu hans. „Stjórnmálamaður verður að sjálfsögðu að venjast því að leiða hjá sér eða standa af sér daglegt umtal, kommentakerfi og gróusögur og fleira í þeim dúr,“ sagði hann.
Hann sagði álagið á fjölskylduna hafa verið ómannlegt. Sagði hann að þau hafi „farið í gegnum þennan skafl saman“ og þau kæmu út úr honum sterkari en áður.
„Ég veit líka að það hefur verið ráðist á ykkur vegna mín og atburða sem tengjast lífi mínu og fjölskyldu minnar,“ sagði Sigmundur. Sagði hann það hafa verið sárt fyrir sig og eiginkonu sína
Sigmundur vill nýtt sjúkrahús á nýjum stað
Sigmundur hefur lengi talað fyrir nýrri staðsetningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, hefur þar einna helst nefnt Vífilstaði. Það verður eitt af helstu kosningamálum Framsóknarflokksins í ár.
Nýja sjúkrahúsið á að vera „tuttugustu og fyrstu aldar sjúkrahús þar sem saman fara nýjasta tækni og aðlaðandi og skilvirk hönnun,“ sagði Sigmundu.
Sigmundur vill verja Reykjavíkurflugvöll
Annað kosningamál flokksins verður Reykjavíkurflugvöllur sem Sigmundur sagði að Framsóknarflokkurinn ætlaði að verja. Hann væri þjóðareign, stærði að mestu leyti á landi í eigu ríkisins og því væri eðlilegt að skipulagsvaldið yfir honum færðist þangað.