Svo virðist sem Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana, hafi komist hjá því að greiða tekjuskatt í nærri tvo áratugi samkvæmt gögnum sem bandaríska dagblaðið New York Times hefur undir höndum, en RÚV hefur fjallað um málið.
Í frétt blaðsins segir að Trump hafi lýst yfir 916 milljóna bandarískra dala tapi árið 1995 í skattaskýrslu sinni. Þetta gæti hafa gert það að verkum að hann hafi, á löglegan hátt, komist hjá því að greiða skatta af tekjum sínum í átján ár þar sem tapið var nógu mikið.
Þá segir einnig að tapið komi að mestu til vegna tapreksturs þriggja spilavíta Trumps, misheppnaðs flugreksturs og kaupa hans á Plaza hótelinu í Manhattan á tíunda áratugnum.
Gögnin sem New York Times hefur undir höndum voru send til blaðamanns í september.