Börnin í Eskihlíð 10 og 10a í Reykjavík hafa stofnað húsfélag sem er sérstaklega ætlað börnum í blokkinni. Þau vilja vera meira hvert með öðru, kynnast börnunum í blokkinni, leika saman og stefna á að byggja kofa í garðinum næsta sumar.
Ólína Stefánsdóttir, ellefu ára íbúi í blokkinni, er einn af þremur stofnendum barnahúsfélagsins. Ekki hefur verið fundað í húsfélaginu í nokkurn tíma og því verða kræsingar í boði á fundinum sem boðað hefur verið til á sunnudaginn.
Í fundarboðinu segist stjórn húsfélagsins vona að börnin mæti og taki vini sína með sér. Þá kemur einnig fram að bráðlega flytji nýr drengur í annan stigaganginn.
Næsti húsfélagsfundur verður næstkomandi sunnudag, 9. október. Vonandi kemur þú og svo máttu taka tvo vini þína með þér. (Þú þarft ekki að skrá vini þína líka). Það verða kræsingar í boði af því að við viljum endilega halda upp á fyrsta fundinn okkar í langan tíma. Hlökkum til að sjá ykkur. Kveðja, húsfélag. P.s Það flytur bráðlega nýr strákur í nr. 10.
Ólína segir í samtali við Nútímann að meirihlutinn af börnunum í blokkinni ætli að mæta. Þau ætla að hafa gaman á fundinum, tala saman, koma með smá mat og leika sér niðri í þvottahúsi.
Hún segist hafa fengið hugmyndina ásamt tveimur öðrum stúlkum í húsinu. Aðspurð telur Ólína að það sé skemmtilegra að húsfundum hjá barnahúsfélagi en hjá fullorðnum. „Við endum alltaf á því að fara út í garð með tjöld og svo leikum við okkur þar,“ segir hún.
Stefán Pálsson, faðir Ólínu, telur að húsfélagið sé innblásið af tíðum fundarhöldum húsfélagsins sem stendur í framkvæmdum um þessar mundir.
„Það er reyndar söguleg hefð fyrir athafnasömum börnum í húsinu. Jakob Frímann Magnússon ólst þarna upp og hefur í minningabók sinni lýst skipulögðum barnasýningum og fundum þar,“ segir Stefán í samtali við Nútímann.