Louise Delage virtist vera eins og hver önnur frönsk ung kona að njóta lífsins til hins ítrasta. Á Instagram-síðu hennar er að finna myndir af henni að drekka kokteila á skútum, borða á veitingastöðum og sötra kampavín í freyðibaði.
Það var þó ekki allt eins og það sýndist því um að ræða vitundarvakningu til að beina sjónum almennings að áfengisvandamálum ungs fólks. Lousie Delage er ekki til í raun og veru.
Sjá einnig: Vekja athygli á ofbeldi gegn konum með vændissíðu þar sem allar konurnar eru látnar
Þann 30. september birtist myndband á Instagram-síðunni þar sem búið var að taka saman allar 149 myndirnar og vekja athygli á þeirri staðreynd á hverri einustu mynd er unga konan með áfengan drykk í hönd. Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan.
Aðgangurinn var stofnaður 1. ágúst á þessu ári. Þegar myndbandið var birt var Louise Delage komin með yfir 50 þúsund fylgjendur sem voru duglegir að skilja eftir athugasemdir.
Konan á myndunum er franskur nemandi sem tók þátt í vitundarvakningunni fyrir Addict Aide, frönsk samtök sem aðstoða fólk við að hætta að drekka áfengi. Nafn hennar hefur ekki verið gert opinbert. Það var auglýsingastofan BETC sem átti hugmyndina að útfærslu vitundarvakningarinnar.
Stéphane Xiberras, starfsmaður stofunnar, segir í samtali við CNN að auðvelt sé að taka ekki eftir einkennum fíknar. „Hún er stúlkan í næstu íbúð, hún gæti verið dóttir þín eða einhver sem þú þekkir,“ segir hann og vísar í Louise Delage.