Jose Javier, tólf ára gamall spænskur strákur, eyddi óvart 100.000 evrum eða 12,7 milljónum íslenskum króna í auglýsingakostnað hjá Google.
The Guardian fjallaði um málið.
Javier ætlaði að gera lúðrasveitina sína fræga með því að auglýsa hana á netinu og fékk hann leyfi foreldra sinna til að nota pening úr sjóði sem þau höfðu lagt í fyrir hann.
Í ágúst bjó Javier til aðgang hjá AdWords. Um er að ræða þjónustu á vegum Google sem setur auglýsingar fyrir ofan leitarniðurstöður leitarvélarinnar. Sá sem notar þjónustuna þarf að greiða fyrir hvert skipti sem smellt er á auglýsinguna sem viðkomandi er með.
Þar sem borga þarf fyrir hvert skipti sem smellt er á auglýsinguna er líklegt að auglýsing Javiers hafi verið mikið skoðuð þar sem að auglýsingakostnaðurinn varð frekar hár.
Javier fékk bankaupplýsingar frá foreldrum sínum og framvísaði þeim hjá AdWords þegar hann sótti um þjónustuna. Þau töldu að hann ætlaði að reyna að afla peninga með auglýsingum á heimasíðu sinni. Að lokum hafði bankinn samband við þau og tilkynnti þeim frá því að þau væru nokkrum milljónum fátækari.
Í yfirlýsingu frá Google, sem greint er frá í frétt Guardian, segist fyrirtækið ætla að falla frá kröfu um að Javier borgi upphæðina þar sem um mistök hafi verið að ræða. Ólíklegt verði að teljast að tólf ára gamall drengur hafi viljað eyða um þrettán milljónum til að auglýsa lúðrasveitina sína.