Samgönguyfirvöld í Bandaríkjunum hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þau vara við notkun símanna Samsung Galaxy Note 7 í flugi. Þetta er gert eftir að sími sprakk rétt fyrir brottför í innanlandsflugi í Bandaríkjunum á dögunum. BBC fjallaði um málið á vef sínum.
Samsung hefur unnið að því að endurkalla gallaða Galaxy Note 7 síma sem hafa verið að springa. Síminn sem sprakk í flugvélinni var hinsvegar nýja útgáfan af Note 7 símunum og átti því ekki að geta sprungið.
Eigandi símans segir að slökkt hafi verið á símanum og hann ekki í hleðslu þegar síminn byrjaði að ofhitna í vasa hans. Síminn var orðinn svo heitur að eigandinn kastaði honum á gólf flugvélarinnar og þá byrjaði þykkur reykur að stíga úr símanum.
Í yfirlýsingu frá Samsung segist fyrirtækið vera að rannsaka atvikið.