Um hvað snýst málið?
Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku tillögu Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem felur í sér hækkun hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi úr 370 þúsund kr. á mánuði í hálfa milljón kr. á mánuði.
Hvað er búið að gerast?
Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma sem barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.
Mánaðarleg greiðsla til starfsmanns er 80% af meðaltali heildarlauna.
Hámarksgreiðslan var ítrekað lækkuð í kjölfar efnahagshrunsins og urðu lægstar 300 þúsund krónur á mánuði. Þann 1. janúar 2014 var hámarksgreiðslan hækkuð í 370 þúsund krónu á mánuði og hefur verið óbreytt síðan.
Á undanförnum árum hefur fæðingartíðni hér á landi lækkað og fór í fyrra niður í 1,8 börn á hverja konu, en til að viðhalda mannfjölda til langs tíma er horft til þess að hver kona þurfi að fæða 2,1 barn á ævinni.
Á sama tíma hafa hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði lækkað mikið og er ein afleiðing þess að feður taka í minna mæli fæðingarorlof.
Hvað gerist næst?
Alþingi þarf að samþykkja þingsályktunartillöguna svo hún taki gildi.
Gildistaka breytinganna miðast við 15. október og ná til foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur þann dag eða síðar.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.