Leikarinn Jason Momoa bað ekki um leyfi áður en hann fór í heita náttúrulaug á Gjögri á Vestfjörðum. Þetta segir Hilmar F. Thorarensen, einn eiganda laugarinnar, í samtali við Nútímann en leikarinn birti mynd af sér í lauginni á Instagram fyrr í dag en Stundin greindi fyrst frá málinu.
Tökur á Hollywood-stórmyndinni Justice League standa yfir í Djúpavík á Ströndum en Momoa er einn af leikurum myndarinnar.
Á sumrin er skilti við laugina þar sem kemur fram, bæði á íslensku og ensku, að óviðkomandi sé bannaður aðgangur. Skiltið er tekið niður á haustin og laugin tæmd.
„Þegar ég fór þarna í haust tæmdi ég pottinn,“ segir Hilmar.
Til þess að fara í hann þarf að stífla frárennslið og veita í þessa skál. Menn þurfa að vera búnir að þessu áður, það tekur tíu til tólf tíma.
Eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni er búið að steypa skeifu sem gerir það að verkum að heitt vatn safnast saman og verður að laug, eða heitum potti.
„Ég hef sagt við suma sem hafa verið í lauginni og ekki beðið um leyfi að ég eigi heitan pott í vesturbæ Reykjavíkur. Þangað komi aldrei nokkur maður og fer í pottin án leyfis,“ bætir Hilmar við.