Auglýsing

Örskýring: Ha? Af hverju loga bumbuhópar um allt land?

Um hvað snýst málið?

Fólk sem á von á barni um þessar mundir er ósátt við að hækkun á hámarksgreiðslu úr fæðingarorlofssjóði miðist við fæðingardag barns.

Hvað er búið að gerast?

Ríkisstjórnin samþykkti nýlega tillögu um hækkun hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi úr 370 þúsund kr. á mánuði í hálfa milljón kr. á mánuði.

Foreldri í fæðingarorlofi fær ekki jafn mikið greitt á mánuði og það fengi ef það væri úti á vinnumarkaðinum. Greiðslan er 80% af meðaltali heildarlauna. Meðaltalið er fengið með því að skoða laun í eitt ár, einu og hálfu ári til hálfu ári fyrir fæðingu barnsins, leggja þau saman og deila með tólf mánuðum, eða heilu ári.

Gildistaka breytinganna miðast við 15. október og ná til foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur þann dag eða síðar. Ljóst er að foreldri sem eignast barn 15. október eða síðar, hefur meira svigrúm til greiðslna úr sjóðnum en þau sem eignast barn fyrir þann dag.

Dæmi eru um að konur sem hafa átt að fara í gangsetningu hafi fengið að fresta henni um nokkra daga svo barnið fæðist eftir 15. október.

Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, sagði ljósmæður í mæðravernd finna fyrir taugatitringi hjá verðandi mæðrum, fólki finnist þetta óréttlátt og bumbuhópar logi um allt land.

Sett hefur verið af stað undirskrifasöfnun sem ber yfirskriftina Eru börn, fædd 14. október 2016 og fyrr, ódýrari en börn fædd 15. október 2016 og síðar?. Rúmlega 1.800 manns krefjast þess að breytingarnar verði ekki bundnar því skilyrði að barn sé fætt 15. október 2016 eða síðar.

Hvað gerist næst?

Breytingin tekur gildi á morgun, 15. október.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing