Auglýsing

Píratar vilja samstarf með Vinstri grænum, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Viðreisn

Píratar hafa boðið Vinstri grænum, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Viðreisn að hefja strax formlegar viðræður um ríkisstjórnarsamstarf. Píratar vilja þannig geta lagt fram drög að stjórnarsáttmála áður en þjóðin gengur til kosninga.

Frá þessu er greint á vef RÚV en flokkurinn tilkynnti þetta á blaðamannafundi fyrir hádegi.

Píratar hafa sent formönnum flokkanna fjögurra bréf, þar sem þeim er boðið til funda um mögulegt samstarf. Flokkurinn hyggst svo skila skýrslu um þær viðræður til kjósenda 27. október, tveimur dögum fyrir kosningar, líkt og kemur fram í frétt RÚV.

„Sú hefð hefur skapast í íslenskum stjórnmálum að loforð eru einatt svikin eftir kosningar og bera menn fyrir sig „pólitískum ómöguleika“, eins og frægt er orðið. Hefðin er sú, að stjórnmálaflokkar sem mynda ríkisstjórnir á Íslandi skýla sér bakvið málamiðlanir í stjórnarmyndun. Þannig tekst þeim ítrekað að svíkja kjósendur sína,“ segir í yfirlýsingu frá forsvarsmönnum Pírata, Birgittu Jónsdóttur, Einari Brynjólfssyni og Smára McCarthy.

„Við Píratar viljum koma í veg fyrir pólitískan ómöguleika. Við viljum kerfisbreytingar. Við ætlum ekki að blekkja kjósendur. Við munum ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með þeim flokkum sem ekki geta skuldbundið sig til ákveðinna verka fyrir kosningar.“

Í yfirlýsingunni kemur fram að Píratar leggi fimm áherslumál sín til grundvallar viðræðunum. Á vefsíðu Pírata eru áherslur flokksins sagðar vera að uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá, tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum, endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku, endurvekja traust og tækla spillingu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing