Farþegum verður treyst fyrir því að fara ekki með Samsung Galaxy Note 7 síma um borð í flugvélar Icelandair og Wow Air. Símar verða ekki skoðaðir hjá farþegum.
Icelandair og WOW Air hafa ákveðið að banna Samsung Galaxy Note 7 farsíma um borð í flugvélum sínum líkt og fleiri flugfélög víða um heim hafa gert. Er það gert vegna þess að kviknað hefur í símunum vegna ofhitnunar, meðal annars um borð í flugvélum.
Sjá einnig: Endurbætt útgáfa af Samsung Galaxy Note 7 sprakk í flugvél
Svana Friðriksdóttir, almannatengill hjá Wow Air, segir að bann flugmálayfirvalda bæði í Evrópu og Bandaríkjunum setja tóninn. Þau hafa bannað þessa tegund farsíma í flugum vegna sprengju- og brunahættu.
Svana útskýrir í samtali við Nútímann hvernig banninu verður framfylgt. „Við erum búin að tilkynna þetta á Facebook og á heimasíðu okkar,“ segir hún.
Svo hefur þetta komið fram í fjölmiðlum og póstur sem tilkynnir þetta bann hefur verið sendur á alla þá sem hafa keypt flugmiða hjá okkur.
Svana segir að ef bannið fari fram hjá farþegum eru þeir minntir á að óheimilt sé að taka símana um borð þegar þeir innrita sig í flug. „Símarnir eru hvorki leyfðir í handfarangri né almennum farangri. Við treystum á að þetta ferli verði til þess að fólk taki ekki símann um borð.“
Þá nefnir hún að þar sem flugmálayfirvöld telja að raunveruleg ógn stafi af símanum þá verði farþegum sem ekki vilja losa sig við farsímana vísað úr flugi.