Kynjakvóti á keppendur í Gettu betur hefur verið festur í sessi. Kvótinn var samþykktur árið 2013 og var hugsaður til reynslu í Gettu betur árin 2015 og 2016. Nú hefur verið ákveðið að aldrei megi fleiri en tveir af sama kyninu vera í liðum skólanna en í hverju liði eru þrír þátttakendur.
Sjá einnig: Sjö bestu augnablik TilfinningaTómasar í úrslitum Gettu betur
Ákvörðun um þetta var tekin fundi stýrihóps keppninnar. Þar sitja fulltrúar þeirra fjögurra menntaskóla sem komast í undanúrslit í síðustu keppni ásamt fulltrúum Ríkisútvarpsins. Steinþór Helgi Arnsteinsson, annar dómara Gettu betur, fagnar því að kvótinn hafi verið festur í sessi.
„Þetta var einfaldlega feit pæling sem gekk upp,“ segir hann í samtali við Nútímann.
Það kom allt önnur og miklu skemmtilegri dýnamík í þáttinn. Sannaðist bara að þetta er ekki strákasport. Það er því mikið fagnaðarefni að stýrihópur Gettu betur hafi ákveðið að festa þessa reglu í sessi.
Nútíminn hefur heimildir fyrir því að hið sigursæla lið Menntaskólans í Reykjavík muni í fyrsta skipti í sögu skólans tefla fram tveimur stelpum í liðinu sínu.
Tillagan um kynjakvótann kom frá fulltrúum Ríkisútvarpsins á sínum tíma og studdu þrír menntaskólar tillöguna, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Kvennaskólinn. Verslunarskóli Íslands studdi ekki tillöguna.
Sjá einnig: Dónalegasta spurning í sögu Gettu betur? „Var ég að horfa á apa í 69 með sex ára dóttur minni?“
Steinþór verður dómari keppninnar sem hefst í janúar ásamt Bryndísi Björgvinsdóttur, sem hóf störf í síðasta vor. Steinþór er hins vegar að verða þaulsetnasti dómari í sögu Gettu betur og verður dómari í fjórða skipti á næsta ári. Skemmtikrafturinn Björn Bragi Arnarsson verður áfram spyrill.