Kastljós fjallaði í gærkvöldi um Kaupþingslánið svokallaða: Um 75 milljarða lán sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi 6. október 2008, þremur dögum áður en bankinn féll.
Örskýring: Um hvað snýst símtal Davíðs og Geirs sem Kastljós ætlar að afhjúpa?
Í umfjölluninni kom fram að Seðlabankinn telji Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafa fyrirskipað lánið. Geir telur hins vegar að Seðlabankinn hafi borið ábyrgð á láninu.
Nútíminn tók sama þrjú atriði sem við vissum ekki áður sem komu fram í umfjöllun Kastljóss.
1. Lánið til Kaupþings var tapað áður en gengið var frá því
Í umfjöllun Kastljóss kom fram að Davíð Oddsson hafi tjáð Geir H Haarde að tugmilljarða lán til Kaupþings í miðju bankahruni væri tapað áður en gengið var frá því. Þetta er haft eftir starfsmanni Seðlabankans í vitnaskýrslu hjá Sérstökum saksóknara árið 2012.
2. Símtalið var tekið upp viljandi
Í umfjölluninni kemur fram að Sturla Pálsson, framvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, hafi verið viðstaddur þegar Davíð hringdi í Geir úr síma á skrifstofu Sturlu. Öll símtöl í þeim síma voru hljóðrituð, ólíkt síma Davíðs.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í febrúar árið 2015 segir greinarhöfundur hins vegar að tilviljun hafi ráðið því að símtal Davíðs og Geirs hafi verið hljóðritað. Reykjavíkurbréfið er nafnlaust en líklegt þykir að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hafi skrifað það. Símtalið hefur aldrei fengist birt vegna þess að Geir Haarde hefur ekki viljað að það væri birt vegna þess að hann vissi ekki að það hefði verið hljóðritað.
3. Framkvæmdastjóri hjá Seðlabankanum braut trúnað
Sturla Pálsson, framvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, braut trúnað þegar hann upplýsti eiginkonu sína um aðgerðir Seðlabankans í aðdraganda neyðarlaganna. Eiginkona hans var þá lögmaður samtaka fjármálafyrirtækja.
Í lögum um Seðlabanka Íslands eru skýr ákvæði um þagnarskyldu stjórnenda og starfsmanna Seðlabankans.